143. löggjafarþing — 34. fundur,  11. des. 2013.

lengd þingfundar.

[16:03]
Horfa

Róbert Marshall (Bf) (um atkvæðagreiðslu):

Virðulegur forseti. Mér finnst í sjálfu sér í fínu lagi að hafa kvöldfund en ég var viðstaddur umræðuna í gærkvöldi og það var sláandi hversu lítil þátttaka var af hálfu stjórnarþingmanna. Raunverulega mjög merkilegar upplýsingar komu fram í ræðum þingmanna, eins og hv. þm. Katrínar Jakobsdóttur, sem hefði verið full ástæða til að bregðast við.

Um leið og ég styð það að hafa kvöldfund í kvöld skora ég á stjórnarþingmenn að vera við þessa umræðu. Ég man ekki betur en að á síðasta kjörtímabili hafi menn setið hér lengi oft á kvöldin og fram á nótt, rætt saman og verið fulltrúar frá stjórnarmeirihluta og stjórnarandstöðu. Að minnsta kosti gerði ég það alloft í þeim málum sem heyrðu til minna nefnda og skoraðist ekki undan því. Ég skora á hv. stjórnarþingmenn að vera hérna við umræðuna, a.m.k. fólk sem situr í fjárlaganefnd.