143. löggjafarþing — 34. fundur,  11. des. 2013.

lengd þingfundar.

[16:04]
Horfa

Sigríður Ingibjörg Ingadóttir (Sf) (um atkvæðagreiðslu):

Herra forseti. Ég kom í ræðustól í gær og ræddi fjáraukalagafrumvarpið. Ég tók sérstaklega til umræðu breytingartillögu frá minni hluta og þær áhyggjur sem ég hef af því að ekki eigi að bæta Landspítalanum þann kostnað sem skapaðist af neyðarástandi á spítalanum í upphafi árs.

Ég lýsti líka yfir mjög miklum áhyggjum af því að ekki ætti að tryggja desemberuppbót til þeirra sem hafa framfærslu af atvinnuleysistryggingum sem er, til þess að upplýsa þingmenn, rúmar 170 þús. kr. á mánuði. Þetta er hópur sem kannski þyrfti umfram aðra desemberuppbót.

Hvar sem þingmenn eru á meðan á þingfundi stendur varðar mig ekki mest um, en að hér sé enginn til andsvara við okkur þingmenn sem viljum fjalla málefnalega um fjáraukalög er óþolandi. Það er ekki ástæða til kvöldfunda þegar það ástand er í húsinu.