143. löggjafarþing — 34. fundur,  11. des. 2013.

fjáraukalög 2013.

199. mál
[16:11]
Horfa

Lilja Rafney Magnúsdóttir (Vg):

Virðulegi forseti. Við ræðum hér frumvarp til fjáraukalaga fyrir árið 2013. Í gær var hér mikil og mjög málefnaleg umræða, að ég tel, um þessi fjáraukalög og hefði verið gott að hafa fleiri úr stjórnarliðinu á staðnum, til að bregðast við þeirri umræðu, og hæstv. ráðherra viðstadda.

Ég ætla í upphafi að fara aðeins yfir þessi mál í stærra samhengi. Hér var mikið rætt um aga í ríkisfjármálum og að sú ríkisstjórn sem nú væri komin til valda hefði snúið frá „tærri vinstri stefnu“, eins og hv. formaður fjárlaganefndar orðaði það, að nú væri búið að breyta um kúrs. Það sýndi sig strax í fjáraukalögum þessa árs að framhaldið mundi birtast í fjárlögum fyrir næsta ár.

Það er mikið til í því. Um er að ræða gjörbreytingu frá því sem unnið var eftir og haft að leiðarljósi síðustu fjögur ár. Mér hefur fundist umræðan vera svolítið á þann veg að hin hæstv. hægri ríkisstjórn, sem nú stýrir landinu, telji að hún sé að koma að hruni, að ástandið sé þannig með fjárlagagatið sem nú blasir við, að menn séu að taka við gífurlega erfiðu ástandi og ráðast þurfi í þennan mikla niðurskurð í kjölfarið á því.

Mér fannst það líka með ólíkindum sem kom hér fram fyrr í dag, undir störfum þingsins, að kallað var eftir kjarki, kjarki allra hér inni til að draga úr fjárlagahallanum, 30 milljarða gatinu sem menn hafa talað um, sem er nú ekki svo stórt, að það þýddi ekkert að heimta meira og meira og fara í vasa atvinnulífsins. Mér þótti þetta mjög undarlega orðað þar sem sú ríkisstjórn og sá stjórnarmeirihluti sem vann við fordæmalausar aðstæður við að koma Íslandi út úr kreppunni eða út úr hruninu stóð frammi fyrir fjárlagahalla upp á milli 200 og 300 milljarða, 216 milljarða minnir mig. Nú eru menn að tala um brot af því, og það er eins og ekkert hafi gerst síðustu fjögur ár.

Talandi um aga — ef einhver ríkisstjórn hefur sýnt aga var það síðasta ríkisstjórn sem þurfti að beita miklum aga í fjárlögum og fjárreiðum ríkisins við erfiðar aðstæður og vann með Alþjóðagjaldeyrissjóðnum að efnahagsáætlun fyrir landið með það að markmiði að koma á stöðugleika á gjaldeyrismarkaði og móta stefnu í ríkisfjármálum og koma á sjálfbærri skuldastöðu ríkissjóðs og endurreisa viðurkenndar leikreglur í þjóðfélaginu.

Þetta var gert og stjórnvöld útskrifuðust með sóma í sjöttu endurskoðun sem fór fram hjá Alþjóðagjaldeyrissjóðnum árið 2011. Þessi ríkisstjórn og þau stjórnvöld sem nú eru við völd geta ekki vísað í það að ekki hafi verið mikill agi í ríkisfjármálum við gífurlega erfiðar aðstæður. Og menn geta ekki, eins og hv. þingmenn í stjórnarliðinu gerðu hér áðan, talað um kjark, að nú vanti kjark, því að það var kjarkur sem þurfti til og var til staðar hjá þeim stjórnvöldum sem hafa staðið í stafni síðustu fjögur árin.

Nú virðist kjarkurinn ekki ná lengra en að rífa af atvinnulausu fólki desemberuppbótina og krukka í barnabætur, vaxtabætur og allt það sem lýtur að velferðarkerfi þjóðarinnar. Þar liggur kjarkurinn hjá núverandi stjórnvöldum. Ég frábið mér því að þurfa að hlýða á það að núverandi stjórnarmeirihluti tali um að nú vanti kjark til að ráðast í að skila hallalausum fjárlögum, því að við værum ekki komin þangað sem við erum komin nema kjarkur hefði verið til staðar. Það þurfti að grípa til niðurskurðar, sem var ekkert auðveldur, og það þurfti líka að afla tekna, sem var heldur ekkert auðvelt við þessar aðstæður. Kjarkur núverandi stjórnvalda nær til þess eins að skera niður en kjarkurinn til að afla tekna er ekki til staðar því að hlífa skal þeim sem hafa fjármagnið og fella niður gjöld og skatta á þá sem raunverulega hafa burði til að leggja til samfélagsins, til góðra mála, og byggja það upp.

Þetta er hin ólíka nálgun, sem mér finnst rétt að benda á þegar við ræðum hér fjáraukann, fyrri stjórnvalda og þeirra sem nú stjórna, þessi blandaða leið sem farin var á síðasta kjörtímabili og skilaði okkur þangað sem við erum í dag. Ef eitthvað er ættu núverandi stjórnvöld að vera full auðmýktar og þakka fyrri stjórnvöldum fyrir þann árangur sem náðst hefur. Ég held að það sé eitthvað í okkar þjóðareðli að menn kunna ekki að meta það sem vel er gert, stjórnmálamenn. Þegar stjórnarskipti verða í Noregi þá halda þeir til dæmis til haga því sem vel er gert og fylgja fyrri stefnu sem hefur reynst vel, og líka þó að umskipti verði frá vinstri til hægri.

Hér virðist það vera mottó stjórnvalda að rífa allt niður sem hugsanlega hægt er koma klónum í og gera lítið úr þeim árangri sem náðst hefur en upphefja sjálf sig á móti og berja sér á brjóst og segja: Við erum kjarkmenn. Við ætlum að loka fjárlagagati ríkissjóðs á næsta ári. Til þess þurfum við að komast í pyngjur þeirra sem minnst mega sín í þjóðfélaginu og í raun breyta því velferðarkerfi sem var að byggjast upp þó að það hafi óhjákvæmilega þurft að taka á sig skerðingar þegar efnahagshrunið dundi yfir. Við vitum vel hver bar fyrst og fremst ábyrgð á því, það var frjálshyggjan og sú eiginhagsmunahyggja sem þar réð ríkjum en ekki hugsun fyrir heildina. Mér finnst rétt að við gleymum því ekki.

Nú stöndum við frammi fyrir því að halli ríkissjóðs er um 1% af vergri þjóðarframleiðslu, en halli ríkissjóðs var árið 2008, í kjölfar hrunsins, 14,6% af vergri þjóðarframleiðslu, enda horfa aðrar þjóðir til Íslands með virðingu fyrir því hve vel hefur tekist, við erfiðar aðstæður, að keyra út úr þessu hruni. Þó að við séum því miður ekki komin á endastöð þá erum við komin vel á leið.

Niðurskurður, eins og hann birtist í þessum fjárauka og virðist vera fram undan hjá núverandi stjórnvöldum, dregur úr hagvexti og veltu í þjóðfélaginu. Það er algjör mýta að telja að með lækkun skatta og niðurskurði fari efnahagslífið í gang. Sá árangur sem birtist í hagtölum hjá Hagstofunni, um að verðbólga sé um 3,7% og hagvöxtur sé á réttri leið — það voru góðar tölur sem komu varðandi hagvöxtinn á fyrstu tíu mánuðum ársins. Enginn mundi voga sér, eins og hér hefur verið haldið fram, að segja að það sé þeim stjórnvöldum sem tóku við fyrir sex mánuðum að þakka, að gífurlegur umsnúningur sé í kjörum heimilanna, eins og hv. formaður þingflokks Framsóknarflokksins nefndi hér áðan.

Sá umsnúningur hefur ekki verið að gerast á einni nóttu eftir að ný ríkisstjórn kom til valda. Sá umsnúningur hefur verið að gerast hægt og bítandi, með blóði, svita og tárum, síðustu fjögur ár og fyrir það ber að þakka. En þá eiga menn líka að skynja að það þurfti að hafa fyrir því og ekki eigna sér þann heiður án þess að hafa innstæðu fyrir því; þeir eiga að vera menn til þess.

Markmið með hallalausum fjárlögum mega ekki eingöngu bitna á þeim sem höllum fæti standa. Nú er talað um að það stefni í 20 milljarða halla. Við skulum þá minnast þess að núverandi ríkisstjórn afsalaði sér tekjum upp á 4–5 milljarða á þessu ári og opinberar framkvæmdir hafa verið að dragast saman. Allt er þetta lóð á þá vogarskál að í stað þess að koma svokölluðum hjólum atvinnulífsins í gang, eins og mikið var talað um fyrir kosningar, þá eru menn að draga kraftinn úr samfélaginu; það hefur ekkert gerst.

Mig langar að vitna í grein eftir Indriða H. Þorláksson, þar sem hann talar um áhrif niðurskurðar á hagvöxt og veltu.

Hann segir, með leyfi forseta:

„Þannig hefur ekki komið fram:

að það væri nánast jöfnuður í ríkisfjármálum ef ekki hefðu komið til örlætisgjörningar ríkisstjórnarinnar til handa þeim sem vel eru settir,

að frumgjöld ríkissjóðs (gjöld án vaxta) hafa verið dregin tvöfalt meira saman en sem nemur hækkun vaxtagreiðslna, sem eiga þó að vera ástæðan fyrir niðurskurðinum,

að kaupmáttur launa er að ná því stigi sem hann var á fyrir hrun,

að landsframleiðslan er nú á svipuðu stigi og hún var um 2006,

að hagvöxtur hefur verið síðan 2010 og er meiri nú en nokkurn tíma eftir hrun og meiri en í flestum öðrum löndum,

að þrátt fyrir hrunið er Ísland í hópi þeirra þjóða þar sem lífskjör eru best.“

Við höfum það nefnilega ansi gott en við þurfum að laga til heima hjá okkur, í landinu okkar, þar sem er mikil misskipting. Í heild hefur þessi þjóð það gott að meðaltali en misskiptingin er að aukast. Hún var orðin mikil fyrir hrun og fyrri ríkisstjórn lagði áherslu á að draga úr misskiptingu með þrepaskiptu skattkerfi og bregðast við til að hlífa velferðarkerfinu meira en öðru þegar grípa þurfti til erfiðs niðurskurðar.

Nú er skútunni snúið snögglega við og nú á að finna aurana í vösum þeirra sem minnst mega sín, hlífa útgerðinni í landinu, sem heilt yfir hefur verið að skila gífurlegum hagnaði. Það á að hlífa þeim fjölda erlendra ferðamanna sem koma til landsins við að borga hærri virðisaukaskatt ofan á gistinætur, og ég efast um að þeir ferðamenn hefðu kippt sér upp við að borga hærri virðisaukaskatt. Menn vildu hlífa þar sem eðlilegast hefði verið að ná í fjármagn til að mæta öðrum útgjöldum, til þeirra sem standa veikar fyrir í samfélagi okkar. Og niðurskurður til þróunaraðstoðar sem er til háborinnar skammar.

Ég vil nefna nokkra liði í fjáraukanum, t.d. fjarskiptasjóð. Þar er ekki gert ráð fyrir að markaðar tekjur upp á 195 millj. kr. fari í lögbundið hlutverk sjóðsins — tekjur vegna útboða á 4G. Það eru mjög slæm skilaboð vegna þess að brýn þörf er á að tryggja öryggi í fjarskiptum og í háhraðatengingum, menn hafa talað fyrir því hér á þingi. Ég mælti fyrir tillögu þess efnis fyrir stuttu að efla háhraðatengingu í dreifðum byggðum landsins og fékk góðar undirtektir með þá tillögu og flutningsmenn voru margir á þeirri tillögu með mér. En þetta eru vond skilaboð til dreifðra byggða.

Eins og komið hefur verið inn á er engin desemberuppbót, ekki er gert ráð fyrir henni í þessum fjárauka og það hefur miklar afleiðingar. Ég get bara ekki séð hvernig við getum horft framan í það fólk í þessum jólamánuði og sagt við það: Þið eigið að komast af með 170 þús. kr. á mánuði. Hvernig geta menn — í samhengi við það að leggja af auðlegðarskatt og leggja af sérstök veiðigjöld fyrir rúma 3 milljarða á þessu ári og rúma 6 á næsta ári — svo sagt við þá meðbræður okkar sem verst hafa það og eru í erfiðum aðstæðum: „Nei, nú ætlum við að seilast í þinn vasa til að skila hallalausum fjárlögum?“ Nei, þetta er ekki til fyrirmyndar.

Til að segja eitthvað jákvætt um þessa blessuðu hægri stjórn er ég þó ánægð með að snúið var við varðandi skerðingu í ár á Rannsóknar- og vísindasjóði vegna þeirra verkefna sem farin voru af stað. Það var ekki sjálfgefið, beita þurfti miklum þrýstingi og berjast fyrir því bæði innan fjárlaganefndar og utan. En það var þó snúið við og það fékk að halda sér.

Nám er vinnandi vegur er verkefni sem hefur skilað fjölda af ungu og atvinnulausu fólki aftur á rétta braut í lífinu — nú á að fara með þá fjármuni eitthvað allt annað. Og ég bara skil ekki hvernig hægt er að útdeila því sem er eyrnamerkt ákveðnum verkefnum á einhvern annan hátt án samráðs við þá aðila sem hlut eiga að máli.

Við erum líka að tala um að auka eigi framlög til forsetaembættis Íslands. Ætli þörfin sé brýnust þar? Með fullri virðingu fyrir því embætti held ég að það mætti nú alveg missa sín, ég held að einhverjir aðrir gætu notið þeirra fjármuna. En svona er forgangsröðun ríkisstjórnarinnar, því miður.