143. löggjafarþing — 34. fundur,  11. des. 2013.

fjáraukalög 2013.

199. mál
[16:38]
Horfa

Lilja Rafney Magnúsdóttir (Vg) (andsvar):

Virðulegi forseti. Takk fyrir andsvarið. Ég lýsi því enn og aftur yfir að ég trúi því ekki fyrr en ég tek á því að ríkisstjórnin ætli ekki bakka með það að draga desemberuppbótina til baka og leggja hana inn — hún þyrfti helst að tilkynna það strax svo að fólk vissi að það gæti haldið gleðileg jól fyrir sig og sína með þessari litlu upphæð sem skiptir þó miklu máli.

Varðandi fjarskiptasjóðinn þá hef ég miklar áhyggjur af því hvað þetta þýðir fyrir þann sjóð. Ég hélt að þverpólitískur vilji væri til þess — mér heyrðist það í umræðunni þegar ég mælti fyrir tillögu fyrir nokkrum dögum um háhraðatengingar í dreifbýli — að styrkja fjarskiptasjóð svo að hann gæti staðið undir því lögbundna hlutverki sínu að tryggja öryggi ljósleiðara um landið. Mér skildist á stjórnarliðum í þeirri umræðu að verið væri að vinna að því af hálfu ríkisstjórnarinnar. Ég er því mjög undrandi yfir því að ekki sé gert ráð fyrir að þessar mörkuðu tekjur í fjáraukanum renni í fjarskiptasjóð.

Ég lýsi eftir, eins og mörg okkar hafa gert, viðkomandi hæstv. ráðherra, formanni eða varaformanni fjárlaganefndar til að útskýra það fyrir okkur, áhugafólki um góða háhraðatengingu og fjarskiptatengingu um allt land, hvað er þarna á ferðinni. Er þetta enn einn neikvæður jólaglaðningur sem ríkisstjórnin er að senda landsmönnum eða er ríkisstjórnin kannski utan þjónustusvæðis?