143. löggjafarþing — 34. fundur,  11. des. 2013.

fjáraukalög 2013.

199. mál
[17:16]
Horfa

Ögmundur Jónasson (Vg) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég held í reynd að við séum að tala um eitt mikilvægasta byggðamálið og þá spurningu um jafnrétti og jafnræði í landinu að hafa aðgang að netinu. Það var einmitt þetta sem við óttuðumst mörg hver þegar símakerfið var einkavætt á sínum tíma undir handarjaðri þeirra stjórnmálaflokka sem nú fara með völdin í landinu. Þá bjuggum við við símakerfi sem bauð upp á ódýrustu símtöl á byggðu bóli, hvar sem litið var í heiminum. Íslenska símakerfið var ódýrasta símakerfi í heiminum. Svo var það markaðsvætt og það átti að hafa allt gott í för með sér.

Það sem við sem gagnrýndum þetta höfðum áhyggjur af var nákvæmlega þetta: Að það yrðu til köld svæði, alveg eins og í fjármálakerfinu, sem ekki borgaði sig fyrir símafyrirtækin að fara inn á með hliðsjón af arðsemisforsendum. Þess vegna var fjarskiptasjóður settur upp. Hann var settur upp til að sporna gegn því. Menn töldu að þetta þyrfti hugsanlega ekki að vera nema tímabundin aðgerð en síðasta ríkisstjórn sá að það var bjartsýni sem engin innistæða var fyrir og ákvað að framlengja líf sjóðsins til þess að taka meðal annars á þeim grundvallarmálum sem hv. þingmaður víkur hér að, að nota fjármuni úr sjóðnum til að tryggja netsamgöngur í landinu.