143. löggjafarþing — 34. fundur,  11. des. 2013.

fjáraukalög 2013.

199. mál
[17:18]
Horfa

Helgi Hrafn Gunnarsson (P):

Virðulegi forseti. Ég vil byrja á því að taka undir orð hv. 3. þm. Reykv. n., Ragnheiðar Ríkharðsdóttur, sem talaði hér fyrr í dag. Ég ætla ekki að rifja þau orð upp, ætla að leyfa fólki að finna út úr því hvað hún sagði á netinu. En vel á minnst, seinustu tveir hv. þingmenn nefndu sérstaklega netsamband úti á landi og mig langar að gera það að umræðuefni vegna þess að um er að ræða grunnstoð sem við ættum í raun og veru ekki að vera ósammála um og ég hef ekki heyrt neinn vera ósammála því. Ég hef ekki heyrt neinn koma hingað í pontu og segja: Netið úti á landi er ekki svo mikilvægt, skiptir ekki öllu máli. Ég hef ekki heyrt neinn segja það. Þess vegna dreg ég þá ályktun að hér séu allir sammála um þetta.

Þetta verður kannski mikilvægara og mikilvægara með tímanum vegna þess að því meira sem við notum netið því minna notum við aðrar aðferðir, svo sem pappír, bréfaskriftir, síma og slíkt, sem þýðir að fólk úti á landi hlýtur að lenda sífellt oftar í þeim aðstæðum að það finnur hreinlega ekki upplýsingarnar sem það leitar að. Því er mikilvægt að við sýnum enga linkind þegar kemur að því að netvæða landsbyggðina eftir því sem frekast er unnt.

Í stað þess að endurtaka það sem hefur verið sagt hér fyrr í dag og í gær og oft og ítrekað langar mig aðeins að nefna að sem nýr þingmaður á ég stundum svolítið erfitt með að átta mig á því nákvæmlega hvernig þetta fjármögnunarferli er allt saman hugsað. Ef byrjað væri upp á nýtt og við værum núna í fyrsta sinn að koma saman og ákveða hvernig við ætluðum að haga ríkisbúskapnum þá þykir mér einhvern veginn óhjákvæmilega að við mundum gera meira eða minna allt öðruvísi. Ég held ekki að við hefðum fjárlög einu sinni á ári og fjáraukalög einu sinni á ári. Ég held að við mundum ekki ræða málin á sömu nótum. Ég held að við þyrftum ekki að eyða svona gríðarlega miklum tíma í að tala um mál, þótt það sé vissulega öðrum þáttum að kenna líka og þá kannski helst sambandi minni hlutans og meiri hlutans.

Mig langar að vekja athygli á því að mér hefur sjálfum þótt — kannski er þetta bara vegna þess að ég er nýr þingmaður og ekki með langa reynslu, þó hef ég ansi mikla reynslu af tölvum og tækni og að meðhöndla tölur o.s.frv. — mjög erfitt að garfa í fjárlögunum og fjáraukalögunum og því öllu. Mér finnst það mun erfiðara en ég er vanur á eiginlega öllum öðrum sviðum með þeirri undantekningu kannski þegar ég reyndi einu sinni að reikna út húsnæðislánið mitt en það reyndist nokkurt ævintýri og því er ekki lokið. Það þarf að bera þetta saman við það til að finna einhvern heppilegan samanburð. Því langar mig að leggja til að í framtíðinni hugsum við aðeins minna um hvað við getum endurtekið, í hvað við ættum að setja peningana hér og þar og tala kannski meira um hvernig við ákveðum og greinum það og hvernig við gerum það sem auðveldast fyrir alla, þjóð og hv. þingmenn, að greina fjárlagafrumvarp, fjáraukalagafrumvarp og það allt þannig að auðveldara verði að tala um það svo að við getum haft hnitmiðaðri umræðu og komist betur að niðurstöðu. Nú veit ég að ýmislegt hefur verið gert í þeim málum en mér finnst að það eigi að gerast hraðar, það ætti þegar að vera komið í gang.

Það er í raun og veru bara eitt sem mig langar að nefna í viðbót og það er mikilvægi þess að efla stofnun sem heitir Persónuvernd. Þegar talað er um að auka fjárveitingar hér og þar hef ég sagt í pontu og segi aftur að við eigum undir slíkum kringumstæðum að spyrja okkur: Getum við fengið það lánað, eigum við að fá peningana lánaða fyrir því? Mér finnst það góð spurning. En þegar kemur að grundvallarmannréttindum í samfélaginu, svo sem friðhelgi einkalífsins, þá getum við ekki beðið og ef við getum ekki beðið þá eigum við að fá lán. Við verðum að auka fjárútlát til Persónuverndar vegna þess að við erum að dragast aftur úr. Það sem gerist er að heimurinn heldur áfram að þróast, samfélagið heldur áfram og jafnvel þótt við sitjum hér í pattstöðu út árið þá heldur samfélagið áfram, tæknin heldur áfram og fyrirtækin halda áfram og þau hafa ekki það eftirlit sem þarf til að snúa við þeirri vondu þróun að auðveldara og auðveldara er að gera mistök eða fremja glæpi sem brjóta á friðhelgi einkalífsins.

Ég ætla að ljúka ræðu minni á því að minna fólk aftur á það sem ég hóf mál mitt á, að netsamband úti á landi skipti sennilega hvað mestu máli akkúrat núna fyrir utan hugsanlega persónuvernd. Ég ætla að leyfa fólki sjálfu að ákveða hvort sé mikilvægara en ég myndi segja að hvort tveggja væri álíka mikilvægt.