143. löggjafarþing — 34. fundur,  11. des. 2013.

fjáraukalög 2013.

199. mál
[17:33]
Horfa

Helgi Hrafn Gunnarsson (P) (andsvar):

Virðulegi forseti. Hv. þingmaður talar um sitt afskaplega jákvæða verk á seinasta kjörtímabili sem var einmitt að birta gögn á sniði sem í þokkabót er mjög auðvelt fyrir tæknimenn að nota. Það hefur stundum verið gagnrýnt, hef ég heyrt, að gögnin séu ekki nógu aðgengileg til dæmis fréttamönnum, þá koma ekki litir og sæt kökurit og annað eins sem fólk vill helst sjá, heldur hrá gögn sem tæknimenn geta notað. En það hefur einmitt leitt til þess að leikmenn hafa nýtt sér þessi gögn til að birta þau á mun betri hátt. Þá vil ég nefna sérstaklega vefinn hvertferskatturinn.is en það er vefur sem vinnur úr gögnum sem hv. þingmaður lék lykilhlutverk í að opna á vefnum gogn.island.is. Hv. þingmaður og allir hv. þingmenn geta búist við fullri samvinnu við að halda slíku áfram og passa að þau verkefni sitji ekki á hakanum.