143. löggjafarþing — 34. fundur,  11. des. 2013.

fjáraukalög 2013.

199. mál
[17:37]
Horfa

Ögmundur Jónasson (Vg) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég kem eiginlega upp af mjög eigingjörnum ástæðum. Hv. þingmaður sagði í upphafi máls síns áðan að hann væri sammála formanni þingflokks Sjálfstæðisflokksins og þá væntanlega í þeirri prinsippumræðu sem hér fór fram um gildi fjáraukalaga og hvað í þeim fælist, hvort í þeim birtist vanáætlun fyrrverandi ríkisstjórnar eða að verið væri að gerbreyta forsendum fjárlaga þessa árs eins og ég vildi halda fram. Hv. þingmaður útlistaði hins vegar ekki hvað hann ætti við með þessu, hverju hann væri sammála og hverju ekki en sagði að við gætum flett því upp á netinu.

Þar birtist eigingirnin í mér, ég nenni eiginlega ekki að gera það og mig langar því til að spyrja hv. þingmann hvað hann hafi átt við með þessu.