143. löggjafarþing — 34. fundur,  11. des. 2013.

fjáraukalög 2013.

199. mál
[17:42]
Horfa

Guðlaugur Þór Þórðarson (S):

Virðulegi forseti. Við erum að ræða frumvarp til fjáraukalaga sem er eðli málsins samkvæmt afskaplega mikilvægt. Búið er að fara yfir ýmis mál hvað það varðar og jafnvel ræða ýmislegt annað en fjáraukann eins og gengur í umræðu sem þessari. Ég held að mikilvægt sé að við séum meðvituð um hver staðan er. Á þessum dögum erum við bæði að ræða frumvarp til fjáraukalaga og frumvarp til fjárlaga. Það er auðvitað alltaf verkefni að púsla saman fjárlögum, meira að segja í góðæri því að þá telja menn að hægt sé að setja miklu meiri fjármuni í ýmislegt. Í þessu tilfelli hafa þær áætlanir sem var lagt af stað með árið 2013 því miður ekki gengið eftir. Ég held að það komi flestum á óvart að sjá að við erum að öllu óbreyttu að tala um halla upp á hátt í 30 þúsund milljónir sem er langt frá því sem lagt var upp með, langt frá því sem sagt var frá í kosningunum í vor þótt öllum hefði átt að vera ljóst, sérstaklega þeim sem fóru með völdin þá, að það var ekki staðan. Það voru gefnar væntingar um allra handa hluti, misgóða, sem engin innstæða var fyrir. Þetta eru staðreyndir sem liggja fyrir.

Þrátt fyrir að mér hafi fundist margt gott koma fram hjá mörgum þeim ræðumönnum sem ég hef hlustað á hér, (Gripið fram í.) og taki þeir það til sín sem eiga, hefur verið klifað á ákveðnum hlutum þótt menn viti betur og það komi jafnvel fram í nefndaráliti minni hlutans, sem er ágætlega skrifað og málefnalegt að stærstum hluta. Það er staðfest að klifunin á því að hallinn árið 2013 sé til kominn vegna þess að innheimt eru veiðigjöld, sem hefðu ekki verið innheimt ef ríkisstjórnin hefði ekki farið í það í sumar, en ekki með nákvæmlega sama hætti og stjórnarmeirihlutinn vildi, er röng. Og einnig það að ekki hafi verið settur virðisaukaskattur á ferðaþjónustu eins og lagt var upp með af síðustu ríkisstjórn.

Þessar tvær aðgerðir skýra kannski 15%, eitthvað slíkt, 15% af hallanum. Samt sem áður er klifað á því hvar og hvenær sem er að þetta snúist um að hægt sé að innheimta miklu meiri veiðigjöld, eins og það sé einhver gullæð sem endalaust er hægt að nýta til að fjármagna allt það sem okkur langar til að fjármagna.

Nú má vel vera að menn meti það þannig að í áróðursstríðinu, sem er svo sannarlega í stjórnmálum, borgi sig að tala á þennan hátt, segja hlutina nógu oft og þá verða þeir einhver útgangspunktur. Það er alla vega ekki leið til að halda uppi málefnalegri umræðu um ríkisfjármálin og þjóðmálin almennt og ég vona að við sjáum ekki slíkt áfram. Við horfum á það í þessum fjáraukalögum að ekki er tekið á sumu, og ég er að gagnrýna mína ríkisstjórn, ríkisstjórn sem ég styð, við tökum ekki enn á gríðarlegum vanda sem við verðum að taka á og það er Íbúðalánasjóður. Við gerum ráð fyrir 4,5 milljörðum í Íbúðalánasjóð. Hér tökumst við á og deilum um 10, 20, 30, 40, 50, 100 milljónir, kannski 500 milljónir en á sama tíma fara 4.500 milljónir úr ríkissjóði í húsnæðisbanka. Ef við samþykkjum fjárlögin eins og þau liggja fyrir núna verða aðrar 4.500 milljónir þar á meðan við rembumst við að halda fjárlögunum réttum megin við núllið. Við erum að tala um nokkur hundruð milljónir og engar áætlanir með Alþjóðagjaldeyrissjóðinn, sem síðasta ríkisstjórn lagði upp með, hafa gengið eftir varðandi niðurgreiðslu skulda og við að ná endum saman í ríkisfjármálum. Það tókst því miður ekki.

Nú spyr kannski einhver: Erum við að byrja á þessu núna eða eru þær 9.000 milljónir sem við setjum í þetta — er það bara að byrja núna? Nei, á síðasta kjörtímabili voru held ég settar yfir 40 þúsund milljónir, ætli það séu ekki 43 þúsund milljónir, eitthvað slíkt, jafnvel meira. Þar var aldrei horfst í augu við vandann, því miður, og aldrei gerðar áætlanir sem stóðust, því miður. Við verðum að taka á þeim vanda. Það er alveg ótrúlegt miðað við stærðina á vandamálinu hve lítil umræða er um sjóðinn.

Það er svo skrýtið að þannig hefur það alltaf verið. Þegar farið var í þær aðgerðir sem eru ástæðan fyrir vandanum mátti ekki ræða Íbúðalánasjóð. (Gripið fram í: Hver bannaði þér það?) Ég var ásakaður hvað eftir annað fyrir að taka upp málefni Íbúðalánasjóðs. Það eru ágætissamskipti milli mín og Samfylkingarinnar á bls. 36 í rannsóknarskýrslu um Íbúðalánasjóð þar sem ég benti á hið augljósa, að það kerfi sem við vorum að byggja upp, húsnæðiskerfið, byggði á því að fasteignir hækkuðu alltaf í verði. 90%-lánin og vaxtabæturnar gengu út á að það mundi alltaf hækka fasteignir í verði. Ég vogaði mér að benda á að það væri ekki náttúrulögmál, ég benti á Noreg, og eitthvert annað land sem ég man ekki hvað var, sem dæmi um að fasteignaverð hefði jafnvel lækkað. Þá var spurt: Ertu að spá bankahruni? Ég svaraði því miður ekki játandi af því að ég var ekkert að spá bankahruni, ég sá það ekki fyrir, einn af sárafáum Íslendingum sem sáu það ekki fyrir. (Gripið fram í.) Ég ætlaði að hlífa hv. þingmanni sem gagnrýndi mig hvað helst og ætla að gera það áfram af því að mér er svo hlýtt til hv. þingmanns.

Þessar upphæðir eru alvöruupphæðir. Allar upphæðir skipta miklu máli en ef við tökum ekki á stóru liðunum höldum við áfram að dæla fjármunum inn í þennan ágæta banka. Ég tek skýrt fram að ég er ekki að ásaka starfsfólk eða stjórnendur bankans eða neitt slíkt, þetta er mál okkar stjórnmálamannanna. Við gerðum mistök og við þurfum þjóðarinnar vegna að taka á því sem allra, allra fyrst. Því miður ýtti síðasta ríkisstjórn þeim vanda á undan sér og vonaðist til að hann mundi lagast, sem er augljóst að hann gerði ekki. Þessi ríkisstjórn sem nú er og þingheimur allur verður að taka á málinu.

Það hefur ýmislegt verið sagt í umræðunni um fjáraukann og ég ætla ekki að fara í efnisatriði um öll mál. Ég vil aðeins nefna að menn hafa gagnrýnt vinnubrögðin og sagt að hann hafi komið seint fram og það sama með frumvarp til fjárlaga. Ég ætla bara segja að það er alveg réttmæt gagnrýni, hún er réttmæt. Hún skýrist að einhverju leyti af því, og kannski að stærstum hluta, að verkefnið var stærra en menn ætluðu. Jafnvel þótt menn teldu að forsendur fjárlaga væru ekki jafn traustar og lagt var upp með af stjórnarliðum áttu þeir ekki von á þessari aðkomu, á því er enginn vafi. Það er snúið að breyta forgangsröð og taka á vanda sem þessum en það breytir því ekki að betur má ef duga skal og það er afskaplega mikilvægt að ekki verði einungis talað um mikilvægi þess að taka málið fyrr, koma með breytingartillögu fyrr, heldur að við tileinkum okkur það, og nú er ég sjálfsgagnrýninn því að ég á auðvitað minn þátt í þessu eins og allir aðrir hv. þingmenn stjórnarliðsins.

Mér finnst eitt gott sem hefur komið út úr umræðunni að undanförnu og það tengist bæði fjáraukalögunum og fjárlögunum, það hefur komið umræða um IPA-aðlögunarstyrkina. Mönnum hefur fundist stærsti einstaki gallinn við Evrópumálin sá að þau byggja ekki á staðreyndum. Ég skil ekki af hverju og gagnrýni þá sem eru fylgjandi aðild Íslands að Evrópusambandinu fyrir að hafa lagt hlutina upp öðruvísi en þeir eru. Ég veit ekki alveg af hverju þeir hafa gert það vegna þess að á endanum kemur alltaf niðurstaðan, sama hver hún er, staðreyndirnar liggja á borðinu. Nákvæmlega það sama og við IPA-málið. IPA-styrkirnir eru til komnir, og allir vita það, — allir— vegna þess að verið er að styrkja viðkomandi aðildarríki til að aðlaga kerfi sitt að regluverki Evrópusambandsins, af því að þetta eru aðlögunarviðræður. Röksemd ESB fyrir því að hætta að styrkja okkur er sú að við erum ekki í aðlögun að Evrópusambandinu. Þess vegna draga þeir styrkina til baka.

Við getum haft allar skoðanir á því hvort Ísland eigi að vera aðili að Evrópusambandinu og ýmislegu því tengdu en við getum alla vega hætt að deila um hvað IPA-styrkirnir eru. Það er alveg skýrt að þetta eru aðlögunarstyrkir sem eru veittir landi sem er í aðlögunarferli. Það felst mikill tímasparnaður í því að hætta að deila um það, þetta liggur fyrir. Auðvitað er ekkert eðlilegt við að veita landi IPA-aðlögunarstyrki sem er ekkert í aðlögun að Evrópusambandinu. Ég skil vel að Evrópusambandið skyldi ekki vilja halda því áfram á sínum tíma. Það er hins vegar ljóður á ráði Evrópusambandsins og ekki traustvekjandi að þeir sögðu aðra hluti, ef marka má þær upplýsingar sem við fengum í nefndinni, en síðan varð raunin, þ.e. þeir sögðust ætla að greiða styrkina í þau verkefni sem væru byrjuð en ef marka má fregnir núna og heimildir frá Brussel hættu þeir við það í miðjum klíðum. Við því er í sjálfu sér ekki mikið að gera en það er ekki traustvekjandi þegar tollabandalagið kemur svona fram því að með því eru þeir svo sannarlega að fara gegn því sem þeir lýstu áður yfir.

Hér hefur líka verið rætt um aga í ríkisfjármálum og að við förum eftir reglum sem er auðvitað mikilvægt. Þetta fjárlagafrumvarp sýnir eðli málsins samkvæmt að þegar menn fara ekki eftir því standast áætlanir ekki. Við sjáum að liðir í fjárlögunum fyrir árið 2013 voru að því er virðist vera nokkurn veginn út í loftið. Það var gert ráð fyrir 4 milljörðum í tekjur af eignasölu. Ég veit ekki til að á neinum tímapunkti hafi undirbúningur að slíku farið fram. Ég held að allir séu sammála um að það skiptir miklu máli að vanda til verka þegar seld eru ríkisfyrirtæki. Síðasta ríkisstjórn ætlaði að selja ríkisfyrirtæki fyrir 4.000 millj., ætlaði að einkavæða fyrir 4.000 millj. en það virðist einungis hafa verið tala á blaði. Hæstv. fyrrverandi ríkisstjórn, ríkisstjórn Vinstri grænna og Samfylkingarinnar sem ætlaði að einkavæða fyrir 4.000 millj. hefði alveg eins getað sagt 6 milljónir, 8 milljónir, 2 milljarða eða hvað sem er því að þetta er augljóslega aðeins tala á blaði.

Hlutir hafa verið ræddir, það átti að taka arðgreiðslur upp á 1,2 milljarða sem enginn veit hvar átti að ná í og ýmislegt fleira mætti nefna.

Það er eitt mál sem margir hafa nefnt, meðal annars hv. stjórnarandstæðingar, sem ég hvet til þess að við tökum djúpa umræðu um, samstaða ætti að vera þvert á flokka þar sem þetta er gríðarlega erfitt mál, og það eru S-merktu lyfin. S-merktu lyfin eru þannig málaflokkur að ef aukningin heldur áfram eins og á horfir verður kostnaðurinn árið 2030, ég held að það sé þá, við S-merkt lyf á Íslandi orðinn jafnmikill og heilbrigðiskerfisins alls, aukningin er svo gríðarleg. Það hefur ekki tekist að halda þeim kostnaði í skefjum. Hvað eru S-merkt lyf? Dýrustu lyfin eru nýjustu og vonandi bestu lyfin sem eru mjög dýr, oft og tíðum er lítil reynsla komin á þau en þau geta reynst mjög vel, stundum og stundum ekki, og eru iðulega veitt fólki sem er mjög veikt eða langveikt. Við erum ekki eina þjóðin sem glímum við það verkefni að reyna að ná einhverju jafnvægi í því að vilja nýta okkur allra bestu lyfin og vera með bestu heilbrigðisþjónustu sem völ er á en halda kostnaði niðri á sama tíma. Þetta er mjög viðkvæmt umræðuefni og væri æskilegt ef þverpólitísk samstaða næðist um það hvernig við tækjum á þeim málum og litum þá kannski til nágrannalandanna og þess hvernig þau fara að þessu. Ég veit að sum nágrannalanda okkar fara þannig að að vera með sérstaka stofnun sem ákveður hvaða lyf eru keypt inn og hver ekki og í henni er bæði heilbrigðisstarfsfólk sem og sérfræðingar og aðrir slíkir. Þeir meta hvaða lyf á að kaupa inn og fyrir hverja og þeir sem eru í forgangi eru yngra fólk og þá sérstaklega börn. En þetta verður alltaf mjög erfitt mál og afskaplega mikilvægt að sú umræða sem við tökum um það verði bæði hófstillt og málefnaleg.

Annað sem stundum hefur verið rætt, en hefur verið minna rætt eftir því sem líður á umræðuna og ég held að ástæða sé fyrir því, er það sem kallað var fjárfestingaráætlun síðustu ríkisstjórnar. Það var loforðalisti sem ekki var innstæða fyrir og sumt hafði ekkert að gera með neinar fjárfestingar. Kannski er skýrasta dæmið fyrirhuguð leiga í Perlunni fyrir Náttúruminjasafnið. Þetta er ein sérkennilegasta forgangsröðun sem sést hefur, alveg sama hvaða tíma um ræðir en þó sérstaklega á þessum tímum.

Forsaga málsins er að til að fjármagna kaup Reykjavíkurborgar af Orkuveitunni á Perlunni, sem var keypt ef ég man rétt á 1 milljarð kr., átti að leigja fyrir 80 millj. kr. á mánuði í 15 ár óuppsegjanlegt húsnæði undir náttúruminjasafn. Kostnaður við að setja upp sýninguna var ráðgerður 500 millj. kr. Reksturinn er um 130 millj. kr. á ári þannig að þetta var skuldbinding hjá ríkissjóði upp á milljarða króna á tímum þegar við berjumst fyrir hverri einustu krónu í grunnþjónustunni. Sem betur fer hefur Alþingi síðasta orðið í þeim málum þannig að við getum stöðvað að farið sé í þá ótrúlegu fjárfestingu og fjárskuldbindingu. Ég treysti því að þverpólitísk samstaða verði um að hafna því að fara þá leið.

Ég ætla ekki að gera lítið úr því að það er mikilvægt að eiga náttúruminjasafn og það er að sjálfsögðu eitthvað sem við viljum öll. Það hins vegar að eyða milljörðum á þennan hátt í þeirri vegferð er vægast sagt óskynsamlegt enda er það svo að þegar síðasta ríkisstjórn gerði þennan samning við borgaryfirvöld ýttu þau frá þeim aðilum sem eiga að sjá um slíka samninga, sem eiga að gæta hagsmuna ríkisins og það eru Ríkiskaup. Þeir fengu ekki að koma nálægt samningagerðinni. Það er regla hjá ríkinu að það sé gert af augljósum ástæðum sem ekki þarf að rökstyðja frekar.

Virðulegi forseti. Við fórum ekki í felur með að það er ýmislegt sem mátti betur fara og við tilgreindum það í nefndaráliti og var nokkur umræða um það undir liðnum um störf þingsins í dag. Það er mjög mikilvægt að við bætum vinnubrögð hvað varðar fjárlög og fjáraukalög. Við erum svo sannarlega á réttri braut, það leikur enginn vafi á því, en betur má ef duga skal. Verkefnið er sameiginlegt: Að snúa hallarekstrinum við og byrja að greiða niður skuldir. Með hverju árinu sem líður sem við aukum skuldirnar gerum við ekki bara þeim sem búa hérna núna miklu erfiðara fyrir heldur líka komandi kynslóðum.