143. löggjafarþing — 34. fundur,  11. des. 2013.

fjáraukalög 2013.

199. mál
[18:09]
Horfa

Guðbjartur Hannesson (Sf) (andsvar):

Hæstv. forseti. Í fyrsta lagi varðandi desemberuppbótina þá er það ekkert sérmerktur liður, hefur aldrei verið heldur er hluti af atvinnuleysisbótunum. Það vantar síðan fé inn í Atvinnuleysistryggingasjóðinn. Þarna hafa menn til dæmis verið að ráðstafa varðandi Nám er vinnandi vegur og verið að færa það til inn í framtíðarverkefni, allt annað óskylt verkefni sem einmitt væri fjármagnað að verulegu leyti úr Atvinnuleysistryggingasjóði. Þá spyr maður: Af hverju notuðu menn ekki þá peninga í þetta svo að dæmi sé tekið?

Hins vegar varðandi spítalana. Það er í raunveruleikanum ekkert verið að gera annað við Landspítalann en að auka hallann á þessu ári því að þó menn mæti því vel á næsta ári þá er óskiljanlegt að taka formlegar ákvarðanir og taka þá ekki sérstaklega fram af hverju því var hafnað og sama gildir með húsaleiguna. Það er hægt að afgreiða þetta með því að segja: Fasteignir ríkisins fá ekki fjármagn og þá núlla menn út upphæðina. En nú þarf að mæta með niðurskurði á heilbrigðishlutanum til að borga til Fasteigna ríkisins. Þannig lítur málið út og það er raunar líka búið að senda bréf út frá fjármálaráðuneytinu um að menn þurfi ekki að borga húsaleiguna. Þá er spurningin: Hvar eru fjáraukalögin þar ef menn ætla ekki að mæta þessu?