143. löggjafarþing — 34. fundur,  11. des. 2013.

fjáraukalög 2013.

199. mál
[18:16]
Horfa

Guðlaugur Þór Þórðarson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það er alla vega gott að hv. þingmaður horfist í augu við vanda Íbúðalánasjóðs. Ég held að það væri ágætt ef hv. þingmaður notaði tækifærið og mundi greina þann fjárlagahalla sem hann er að vísa til sem var í kjölfar bankahrunsins. Það var eðli málsins samkvæmt að langstærstum hluta einskiptiskostnaður sem kom til út af bankahruninu þegar ríkisstjórn Sjálfstæðisflokks og Samfylkingar var við völd — sem á þeim tíma hét ríkisstjórn Samfylkingar og Sjálfstæðisflokksins alveg þangað til í október 2008, þá breyttist nafnið í ríkisstjórn Sjálfstæðisflokksins.

En staðan er sú að Íbúðalánasjóður er í djúpum vanda og ef við getum fundið leiðir og hv. þingmaður er með leiðir til þess að losa okkur úr þeim vanda og við hættum að þurfa að greiða peninga þar inn þá skulum við fara yfir það. Ég held að það sé mjög mikilvægt að gera það sem allra fyrst. (Forseti hringir.) Þó við séum ekki sammála um alla hluti held ég að við hljótum að vera sammála um að við þurfum að taka á þeim vanda sem allra fyrst.