143. löggjafarþing — 34. fundur,  11. des. 2013.

fjáraukalög 2013.

199. mál
[18:17]
Horfa

Róbert Marshall (Bf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Mig langar að spyrja hv. þm. Guðlaug Þór Þórðarson, varaformann fjárlaganefndar, út í lið í fjáraukalögunum sem heitir Græna hagkerfið og verkefni tengd vernd sögulegra og menningartengdra byggða. Mig langar til að hafa þennan aðdraganda að spurningunni vegna þess að á síðustu dögum höfum við séð ríkisstjórnina haga sér eins og dömu í tískuvöruverslun sem kemur inn og út úr mátunarklefanum í sífellt nýjum flíkum, kannar hvaða jarðvegur er fyrir nýjustu útfærslunni og breytir síðan hugmyndum sínum í samræmi við viðbrögðin. Hefur aldrei komið til greina í vinnu nefndarinnar að taka af þeim 165 millj. kr. sem þarna er verið að setja í sérstök verkefni tengd vernd sögulegra og menningartengdra byggða og fornleifa? Svo langar mig líka til að spyrja: Hvað er grænt við þetta verkefni?