143. löggjafarþing — 34. fundur,  11. des. 2013.

fjáraukalög 2013.

199. mál
[18:22]
Horfa

Guðbjartur Hannesson (Sf):

Hæstv. forseti. Ég kem hér í aðra ræðu um fjáraukalögin. Það var margt sem náðist ekki að ræða í fyrri umræðunni en mig langar aðeins að byrja á einu atriði sem hefur verið töluvert rætt í dag, atriði sem er svolítið merkilegt í áliti meiri hluta fjárlaganefndar. Það varðar að meiri hluti fjárlaganefndar ávítar hv. mennta- og menningarmálaráðuneyti fyrir tillögur um að safna saman liðum upp á 300 millj. kr. í sjóð sem síðan á að ráðstafa á næsta ári.

Af þessu tilefni skrifaði minni hluti allsherjar- og menntamálanefndar til formanns nefndarinnar og óskaði eftir því að fá að hitta hæstv. ráðherra til þess að fá skýringar á því hvað ætti að gera við þennan sjóð. Það sem er óvenjulegt og er tekið sérstaklega fram í nefndaráliti meiri hluta fjárlaganefndar er að ekki er ætlunin að nýta þessar heimildir fyrr en á næsta ári. Undir einstökum liðum má sjá að til stendur að skoða ákveðna þætti eins og brottfall úr framhaldsskólum, það á að hækka menntunarstig, það á að vinna gegn atvinnuleysi og vinna að styttingu náms á framhaldsskólastigi. Ekkert af þessu hefur komið til hv. allsherjar- og menntamálanefndar. Ég tel alveg útilokað að afgreiða fjáraukalög sem í raunveruleikanum búa til fjárlög fyrir næsta ár án þess að þetta hafi komið til umræðu og við fáum tækifæri sem nefndarmenn til að fá skýringar á þessum lið.

Meiri hluti fjárlaganefndar hefur heldur ekki skýrt þetta umfram það sem stendur í textanum og hæstv. ráðherra hefur ekki séð ástæðu til að koma í umræðuna og gera grein fyrir hvað liggur að baki. Það er auðvitað óásættanlegt fyrir þá sem eiga að sitja í nefndum þingsins og vinna að málum að fá ekki tækifæri til þess að ræða þetta. Ég treysti því, þrátt fyrir að dagskrá sé komin fyrir morgundaginn og málið sé ekki á henni, að hv. formaður allsherjar- og menntamálanefndar tryggi að þessi umræða muni eiga sér stað í fyrramálið. Ég vildi bara vekja athygli á þessu í upphafi.

Það er líka svolítið sérstakt að vera í tvígang með umræðu af þeim toga að annars vegar kemur hæstv. utanríkisráðherra í þingsal, flytur stutta ræðu eftir kynningu meirihlutaálitsins og gagnrýnir einn af þeim liðum sem þar eru og segir að hann sé byggður á misskilningi. Síðan kemur ekki meira fram um það í umræðunni. Stjórnarmeirihlutinn hefur ekkert gert grein fyrir því hvort breyta eigi því atriði aftur eða hvort það verður tekið til athugunar á milli 2. og 3. umr.

Í öðru lagi er komið í blöð dagsins og undanfarna daga eftir viðtöl við hæstv. ráðherra félags- og húsnæðismála um desemberuppbót á bætur til atvinnuleitenda þar sem hæstv. ráðherra eiginlega ákallar þingið og biður það um að lagfæra þetta. Ég tek undir með hæstv. ráðherra og segi að það er algjörlega til skammar að desemberuppbót, sem skiptir hvergi meira máli en á heimilum þar sem atvinnulaust fólk er, vegna þess að atvinnuleysisbætur eru mjög lágar, skuli hverfa út núna í fjáraukalögum. Þetta er ekki þó hærri tala en 240 milljónir. Þetta kom á sama tíma og við sátum undir ámælum, að mörgu leyti réttilega, um að fólk ætti erfitt með að halda jól. Það er fullt af fátæku fólki á Íslandi enn þá og eitt af brýnni verkefnum fyrir íslenskt samfélag er að berjast gegn þeirri fátækt og tryggja viðunandi afkomu hjá öllum sem þurfa að reka heimili eða sjálfan sig.

Hér eru samtök að safna til að hjálpa fólki að fara í gegnum jólin og hef ég áður vakið athygli á því að jafnvel þó að þau standi sig vel — og við höfum séð bókhaldið frá Fjölskylduhjálpinni, frá mæðrastyrksnefnd og frá öðrum samtökum, frá kirkjunni Hjálpræðishernum og öðrum aðilum sem hafa unnið frábært starf — þá eru þau að vinna með svona 20–40 milljónir í desembermánuði í styrkjum, í gegnum kort eða matarúthlutanir. Hér er verið að tala um 240 milljónir sem á að kippa út og snerta fyrst og fremst sama hópinn, hóp atvinnulausra. Ef meiri hluti fjárlaganefndar sér ekki að sér og bætir þessu ekki við fyrir 3. umr. ætla ég að vona að þegar tillögur minni hlutans koma til atkvæða taki þingheimur að minnsta kosti af skarið og greiði þessu atkvæði og tryggi að atvinnuleitendur fái þessa uppbót eins og á sl. þremur árum.

Það er einmitt fyrirsögn í DV í dag þar sem menn setja í gæsalappir að réttmætar væntingar séu sviknar. Einn af þeim sem er atvinnuleitandi hafði reitt sig á yfirlýsingar hæstv. ráðherra en fær svo þau svör bæði hjá Tryggingastofnun og hjá Vinnumálastofnun að þessar bætur verði ekki greiddar út vegna þess að ráðherrann fái ekki stuðning frá meiri hluta í fjárlaganefnd og væntanlega í þingflokkunum, fái ekki stuðning til að sinna þessu verkefni.

Það var mjög ánægjulegt að fá hér einn af stjórnarþingmönnunum, hv. þm. Guðlaug Þór Þórðarson, varaformann fjárlaganefndar, inn í umræðuna. Ég verð að lýsa vonbrigðum með að hans aðalumræðuefni sem sneri að fjáraukanum var nú um Íbúðalánasjóð. Hann ásakaði okkur í minni hluta þingsins um að við stunduðum einhverja ákveðna klifun á orðum um tekjur og ræddum ekkert annað en veiðileyfagjald og ferðamannaskatt. En ég held að það hafi nú fáir verið með meiri klifun en hv. þingmaður varðandi Íbúðalánasjóð án þess þó að horfast í augu við þá fortíð sem þar er á bak við og þann vanda sem þarf að leysa með langtímaáætlun.

Ég sit sjálfur í einum af hópunum sem hæstv. félags- og húsnæðismálaráðherra hefur skipað til að finna lausnir á þessu og á að ræða um framtíð Íbúðalánasjóðs. Þar er byggt á mjög mikilli vinnu sem fór fram á síðasta kjörtímabili og ítarlegri skýrslu sem lögð var fram fyrir kosningarnar í aprílmánuði um það hvernig væri hægt að taka á vandanum. Eftir sem áður þarf auðvitað að skoða málið algjörlega upp á nýtt, m.a. vegna ákvarðana nýrrar ríkisstjórnar um skuldaúrvinnslu og svokallaða leiðréttingu, einnig vegna þess að ráðgjafar sem kallaðir voru til af núverandi hæstv. ríkisstjórn og eiga að meta ýmsa kosti varðandi Íbúðalánasjóð munu ekki skila áliti fyrr en um jólin eða rétt fyrir áramót. Þess vegna er búið að fresta þeirri vinnu fram yfir áramót. Við þetta er verið að glíma. Í sjálfu sér er ekki ástæða til að eyða miklum tíma í þetta efni í umræðunni um fjáraukann þó að það sé líka rétt sem komið hefur fram hér í umræðunni að það má auðvitað ræða það hversu mikið á að leggja í sjóði á bak við Íbúðalánasjóð á sama tíma og hann er með ríkisábyrgð.

Það kom mér líka á óvart og olli mér vonbrigðum að fyrrverandi heilbrigðisráðherra, sem sagt kollegi að því leyti, hv. þingmaður sem ég nefndi hér áðan, afgreiddi bara umræðuna um það að hér hafi verið lofað 125 millj. kr. fjárveitingu til Landspítalans og hún formlega afgreidd í fyrri ríkisstjórn en nú skuli hún vera strokuð út, með því að segja: Við áttum bara ekki pening. Það er engin röksemd, það er ekki fjallað um af hverju það er gert. Landspítalinn er þá bara látinn sýna meiri halla og vitandi að þar á að grípa inn í á næsta ári er ljóst að það viðfangsefni verður ekkert auðveldara ef þessi upphæð bætist við.

Sama gildir með húsaleigu stofnananna. Ef menn víkja ekki af þeirri leið, annaðhvort með því að borga ekki hækkun inn til Fasteigna ríkisins eða með því að veita fjárveitingu til þessa eins og fyrri ríkisstjórn gerði ráð fyrir — þáverandi starfsmenn fjármálaráðuneytisins skrifuðu hverri og einni stofnun um hver upphæðin væri sem ætti að greiða til viðkomandi stofnana, allt upp í 20 milljónir — og ef menn eiga að mæta því innan ramma þessa árs þá erum við að tala um að fólk verði að skera niður hjúkrun og lækningar og aðra slíka þjónustu til þess að borga húsaleigu. Ef sú verður raunin er gjörsamlega búið að eyðileggja hugmyndina á bak við Fasteignir ríkisins. Ég treysti á að stjórnarþingmenn sjái að sér og taki þessar tillögur og samþykki þær, einfaldlega til þess að gæta réttlætis gagnvart þeim stofnunum sem hér eiga í hlut.

Að lokum langar mig að benda á að það er mikilvægt að muna, þegar menn eru alltaf að tala um fyrrverandi ríkisstjórn, að (Forseti hringir.) á þessu ári hefur ný ríkisstjórn starfað sjö af tólf mánuðum ársins.