143. löggjafarþing — 34. fundur,  11. des. 2013.

fjáraukalög 2013.

199. mál
[18:35]
Horfa

Guðbjartur Hannesson (Sf) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég þakka fyrirspurnina. Hv. þm. Bjarkey Gunnarsdóttir situr í fjárlaganefnd og ég hef nú þegar vakið athygli á því að mér finnst líka mikilvægt varðandi Nám er vinnandi vegur að átta sig á því hvaðan peningarnir inn í það verkefni komu. Ég hef ekki þá skiptingu í höfðinu en þetta er upphaflega samstarfsverkefni á milli aðila vinnumarkaðarins og stjórnar Atvinnuleysistryggingasjóðs og ráðuneyta sem var velferðarráðuneytið og mennta- og menningarmálaráðuneytið. Það var samkomulag um að setja ákveðið fjármagn í að auka menntunarstig og í vinnu með ungu fólki og menntamálaráðuneytið eða ríkið lagði þar á móti. Ég hef ekki fengið svar við því, og ég bið um að það verði skoðað í nefndinni, hvað sé verið að færa á milli. Eru það peningarnir frá Atvinnuleysistryggingasjóði? Það finnst mér mjög vafasamt að gera. Aftur á móti ef það er einungis hlutinn frá ríkinu og ekki hefur verið þörf fyrir hann getur maður litið það öðrum augum. Svo er annað mál hvernig menn ráðstafa þessu

Hafi þetta verið frá Atvinnuleysistryggingasjóði er svigrúm þar til þess að mæta til dæmis desemberuppbótinni og það hefði verið miklu eðlilegra að fara beint í að taka þetta út úr fjáraukanum og flytja svo nýja tillögu um 300 milljónir inn í fjárlögum. Það er rétti gangurinn í málinu og ég sé ekki af hverju menn eru hræddir við það nema þeir séu svo uppteknir af því að endar verði að ná saman. Það er auðvitað enginn munur á því ef það myndar svo aukinn halla einhvers staðar annars staðar.

Ég skora á nefndina — menn verða að fá tíma á milli 2. og 3. umr. til að fara yfir málin — að skoða hvernig Nám er vinnandi vegur er fjármagnað. Það eru í gangi tvö verkefni sem eru gríðarlega mikilvæg sem varða eflingu menntunarstigs, annars vegar tilraunaverkefni á Norðurlandi vestra og hins vegar í Breiðholti þar sem verið er að leita úrræða til þess að bæta menntunarstig verkafólks og launafólks á Íslandi, 30% þeirra á vinnumarkaði eru aðeins með grunnskólamenntun. Það eru ekki nema 10% annars staðar á Norðurlöndunum og (Forseti hringir.) aðilar vinnumarkaðarins hafa hvatt til þess að þetta sé lagað. Þessi tilraunaverkefni snúa að því.