143. löggjafarþing — 34. fundur,  11. des. 2013.

fjáraukalög 2013.

199. mál
[20:11]
Horfa

Guðbjartur Hannesson (Sf) (andsvar):

Hæstv. forseti. Það væri hægt að fara mjög víða í þessum umræðum en því miður er ræðutíminn almennt stuttur við 2. umr. Ég heyrði að hv. þm. Steingrímur J. Sigfússon átti mikið eftir af ræðu sinni þegar í lokin var komið. Hann nefndi veiðileyfagjöldin. Ég hef nú stundum strítt útgerðinni með því að spyrja: Hvenær hefur verið besta afkoman í sjávarútvegi síðan kvótakerfið kom á 1992? (Gripið fram í.) Ef menn svara heiðarlega er það á síðustu þremur árum. Þá getur maður gjarnan fylgt því eftir með því að spyrja: Hvaða ríkisstjórn var þá við völd? Það hefur alltaf verið talað um að menn ætluðu að drepa þennan útveg sem er náttúrlega bull. Eftir sem áður hafa menn afsalað sér tekjum og vilja helst ekki ræða það.

Það sem mig langaði til að ræða við hv. þingmann og fá enn þá betri skýringar á er um þennan óvenjulega hlut í meirihlutaáliti fjárlaganefndar sem gagnrýnir mjög harkalega ráðuneytin en leyfir þeim eftir sem áður að fara fram með þeim hætti sem þar er gert, sérstaklega í menntamálunum. Gæti hv. þingmaður rifjað aðeins upp hvernig átakið Nám er vinnandi vegur og vinnumarkaðsúrræðin voru fjármögnuð? Eftir því sem ég best veit voru þau fjármögnuð af aðilum vinnumarkaðarins og á móti var menntamálaráðuneytið með hluta af fjárveitingu. En ég sé ekki betur en að jafnvel sé verið að taka þann hluta sem lagður var til hliðar til vinnumarkaðsúrræða og færa yfir til menntamálaráðuneytisins til ráðstöfunar á næsta ári í styttingu framhaldsnáms o.fl.

Mig langar aðeins að heyra betur skoðanir þingmannsins á þessu og líka hvort með þessari breytingu, sem er gerð á forsætisráðuneytinu með því að draga saman liði og búa til púllíu af menningarþáttum í lok desember, sé ekki verið að gera það sama þar, þ.e. verið að búa til upphæð til þess (Forseti hringir.) að eiga á næsta ári sem er auðvitað hvort tveggja fjárlagamál en ekki fjáraukalagamál.