143. löggjafarþing — 34. fundur,  11. des. 2013.

fjáraukalög 2013.

199. mál
[20:32]
Horfa

Steingrímur J. Sigfússon (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Það er alveg rétt að þróunaraðstoð lækkaði í framhaldi af hruninu. Reyndar er árið 2008 dálítið afbrigðilegt vegna þeirrar breytingar sem varð á gengi krónunnar innan þess árs og þar sem búið var að skuldbinda talsvert af framlögunum í erlendri mynt rokhækkaði hlutfallið í íslenskum krónum gagnvart landsframleiðslunni af þeim sökum, ekki vegna þess að menn tækju sérstaklega ákvarðanir um hitt. Árin á eftir, sérstaklega árin 2009 og 2010, lækkar þróunaraðstoðin, eða 2010 og 2011, en hún fer að aukast aftur 2012, ef ég man þetta rétt, og síðan er hún verulega hækkuð 2013 þannig að þá fer hlutfallið á nýjan leik í um 0,26% af vergri landsframleiðslu. Strax í miðri kreppunni, að segja má, þ.e. við afgreiðslu fjárlaga fyrir árið 2012 á árinu 2011 er lagt af stað á nýjan leik í að hækka þróunaraðstoð.

Menn höfðu metnað til þess þá, enda byrjaði að rofa til eða byrjaði að hilla undir land í búskap ríkisins (Forseti hringir.) Ég held það sé því ekki sterkur málstaður að ráðast sérstaklega að fyrri ríkisstjórn í þeim efnum miðað við það fordæmi sem hún skapaði.