143. löggjafarþing — 34. fundur,  11. des. 2013.

fjáraukalög 2013.

199. mál
[20:33]
Horfa

Árni Páll Árnason (Sf) (um fundarstjórn):

Virðulegi forseti. Ég vildi vekja máls á því að okkur berast fréttir af því nú að fjárlaganefnd hafi á fundi sínum rétt í þessu tekið út fjárlagafrumvarp fyrir næsta ár án nefndarálits, án þess að fyrir liggi nefndarálit. Það liggur fyrir í 29. gr. þingskapa að áður en nefnd lýkur athugun máls skal liggja fyrir tillaga að nefndaráliti til afgreiðslu. Nefndarálit skal prenta og útbýta meðal þingmanna á fundi.

Það er auðvitað mjög undarlegt — eitt er það að ríkisstjórnin er komin í þennan hrikalega vanda með að ráða til lykta fjárlögum fyrir næsta ár sem hún fékk þó auka þrjár vikur til að undirbúa hér í haust, frið frá öllum skyldum í þinginu, og hún er komin langt fram yfir þann frest sem á að vera fyrir 3. umr. fjárlaga — og með ólíkindum að menn skuli láta sér detta í hug að afgreiða fjárlagafrumvarp úr nefnd og ganga beint í berhögg við þingskapaákvæði. (Forseti hringir.) Ég held að það hljóti að þurfa að ræða hér á vettvangi þingflokksformanna við forseta þingsins um framhald þessara mála því svona er auðvitað ekki hægt að ganga fram, með algerri lögleysu.