143. löggjafarþing — 34. fundur,  11. des. 2013.

fjáraukalög 2013.

199. mál
[20:37]
Horfa

Frsm. minni hluta fjárln. (Oddný G. Harðardóttir) (Sf) (um fundarstjórn):

Virðulegi forseti. Það er rétt sem hér hefur komið fram að nefndarálit meiri hluta fjárlaganefndar var tekið út í ágreiningi fyrir stuttu síðan. Það er hins vegar ekki mesta áhyggjuefni okkar fulltrúa minni hlutans í nefndinni heldur það hvernig síðustu dagar hafa verið. Tillögur hafa tekið örum breytingum. Tölur hafa flogið um á blöðum og tekið breytingum og það hefur verið vandkvæðum bundið fyrir okkur að átta okkur á hlutunum, á tillögunum og á bakgrunni talnanna. Auðvitað höfum við bókað um þetta í fjárlaganefndinni einkum vegna þess að við svona aðstæður er svo mikil hætta á því að gerð verði mistök, hjá minni hlutanum og ekki síst hjá meiri hlutanum, og stofnanir ríkisins þurfi síðan að líða fyrir þau mistök (Forseti hringir.) þegar líður fram á næsta ár.