143. löggjafarþing — 34. fundur,  11. des. 2013.

fjáraukalög 2013.

199. mál
[20:40]
Horfa

Katrín Jakobsdóttir (Vg) (um fundarstjórn):

Virðulegi forseti. Ég er aðeins að átta mig á þessum atburði, þ.e. að í raun og veru sé búið að loka 2. umr. í fjárlaganefnd án þess að nefndarálit hafi legið fyrir. Eins og kom fram í máli hv. þm. Árna Þórs Sigurðssonar er það brot á þingskapalögum þannig að mér er til efs að það dugi að tala um að þetta sé formsatriði, jafnvel þótt efnisatriði málsins séu öllum kunn.

Við höfum margoft rætt það hér að það skiptir máli að vanda sig. Meiri hluti fjárlaganefndar, eins og ég kom að í gær, bendir einmitt á að það þurfi að vanda sig þegar kemur að því hvað eigi að vera í fjáraukalögum og hvað eigi að vera í fjárlögum. Ég er sammála því. Það gengur auðvitað ekki að við setjum lög og fylgjum þeim svo ekki sjálf — ef það er raunin. Hafandi hlustað á þær athugasemdir sem hafa verið gerðar hér finnst mér mikilvægt að hæstv. forseti upplýsi þetta mál.