143. löggjafarþing — 34. fundur,  11. des. 2013.

fjáraukalög 2013.

199. mál
[20:41]
Horfa

Frsm. meiri hluta fjárln. (Vigdís Hauksdóttir) (F) (um fundarstjórn):

Virðulegi forseti. Ég verð að kveðja mér hljóðs. Ég ætla að tilkynna þingheimi það, og ég fagna því mjög og vona að þingmenn geri það allir, að fjárlaganefnd hefur farið yfir frumvarpið og tekið málið út úr fjárlaganefnd. (Gripið fram í: Nei.) Ég vil lýsa því yfir að starf nefndarinnar var með afbrigðum gott, málið var unnið í mikilli sátt. Það eru margar breytingartillögur í frumvarpinu (Gripið fram í: ... út úr fjárlaganefnd.) sem eru til hagsbóta fyrir land og þjóð. En ég verð að segja, vegna þess að hér eru fjáraukalög á dagskrá en ekki fjárlagafrumvarpið sjálft, mér finnst fólk vera farið út í efnisumræðu, að ég vil ekki fyrir nokkurn mun brjóta þingskapalög. Því óska ég eftir því að forseti þingsins úrskurði nú hvort fjárlaganefnd hafi brotið þingskapalög með því að taka fjárlagafrumvarpið út úr nefnd með fyrirvara um að nefndarálitið verði lesið yfir og því dreift, að nefndarálitið verði tilbúið í kvöld og minni hlutinn fái það á morgun. Ég vil að forseti úrskurði um það svo hægt sé að hætta þessum upphlaupum sem stjórnarandstaðan stendur fyrir.