143. löggjafarþing — 34. fundur,  11. des. 2013.

fjáraukalög 2013.

199. mál
[20:46]
Horfa

Valgerður Bjarnadóttir (Sf) (um fundarstjórn):

Virðulegi forseti. Ég var að lesa 29. gr. þingskapalaga. Þar stendur alveg skýrt: „Áður en nefnd lýkur athugun máls skal liggja fyrir tillaga að nefndaráliti til afgreiðslu.“ Síðan segir að ef einhver nefndarmaður fallist ekki á álitið skuli hann tilkynna það áður en lokaafgreiðsla málsins fer fram. Ég get ekki séð að menn geti tilkynnt það ef nefndarálit liggur ekki fyrir.

Það tíðkast dálítið í þessum sal að segja: Þetta hefur alltaf verið gert svona. Fyrir mér eru það ekki rök og ég vil beina því til hv. þingflokksformanns Sjálfstæðisflokksins að þó að lög hafi verið brotin fyrr þá er ekki í lagi að gera það. (Gripið fram í.) Það er engin afsökun.

Ég vil endilega taka undir með þeim sem hafa sagt það fyrr að farið verði að ósk hv. þm. Vigdísar Hauksdóttur, formanns fjárlaganefndar, sem er lögfróð manneskja, (Forseti hringir.) um að biðja forseta að gera (Forseti hringir.) hlé á fundi til að botn fáist í þetta mál.