143. löggjafarþing — 34. fundur,  11. des. 2013.

fjáraukalög 2013.

199. mál
[21:39]
Horfa

Lilja Rafney Magnúsdóttir (Vg) (andsvar):

Virðulegur forseti. Mig langar að bera undir hv. þingmann spurningar um það sem kemur fram í fjáraukanum um embætti forseta Íslands og ríkisstjórnina. Hún kom ágætlega inn á það hvað lægi þar á bak við þegar farið var fram á þessa aukafjárveitingu eða fjárauka upp á 14 milljónir. Þykir hv. þingmanni það ekki undarlegt þar sem í afgreiðslu fjárlaga á síðasta ári fyrir þetta ár voru lagðar til viðbótar rúmar 32 milljónir til embættisins inn á þetta ár og að það þurfi þar umfram að bæta við 14 milljónum vegna þess sem talið er upp? Ég tek undir að ég sé ekki að þetta geti verið ófyrirséð.

Varðandi ríkisstjórnina er líka talað um framlag upp á 97 milljónir kr. Telur hv. þingmaður að með einhverjum hætti sé hægt að bregðast við á kosningaári þegar svo miklar breytingar, endurnýjun og ríkisstjórnarskipti eru? Verður alltaf einhver breyta á kosningaári þar sem erfitt verður að gera ráð fyrir auknum kostnaði? Er þessi kostnaður hér innan eðlilegra marka eða hefði kannski hæstv. ríkisstjórn átt að sýna gott fordæmi gagnvart öðrum niðurskurði sem hún hefur boðað og hafið? Hún sjálf hefði átt að sýna gott fordæmi og spara í yfirstjórn Stjórnarráðsins og í yfirstjórn embættis forseta Íslands.