143. löggjafarþing — 34. fundur,  11. des. 2013.

fjáraukalög 2013.

199. mál
[21:48]
Horfa

Valgerður Bjarnadóttir (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég held að nuddið sem hv. þm. Pétur H. Blöndal kallar framgöngu sína hér um fjáraukalög og önnur mál hafi skilað gífurlega miklum árangri í mjög mörgum málum og hjálpað til við það hvernig litið er hér á fjáraukalög. Það þykir æ alvarlegra ef þau eru mikið úr lagi.

Ég er hins vegar ósammála hv. þingmanni um að það sé betra að vera með lifandi fjáraukalög, ef svo má að orði komast, að það þurfi að samþykkja í hvert sinn sem eitthvað á að gerast. Ég er ósammála honum um það. Ég held að það sé betra að hafa upphæð inni og þá er búið að setja þar inn kjarasamninga o.fl. Þar er búið að setja inn einhverja upphæð sem hægt er að hreyfa sig innan og framkvæmdarvaldið getur vissulega gripið til en síðan þarf þingið að samþykkja það. Þá má út af fyrir sig segja að það sé búið að samþykkja það. Kannski getum við orðað það þannig að búið sé að samþykkja fyrir fram að fjáraukalög megi vera tiltekið há og hvernig eigi að ráðstafa þeim fjármunum. Vonandi yrði það þá þannig að menn sæju að hægt væri að skilja eftir afgang af þeim líka. Það kemur hins vegar aftur inn á þessa umræðu sem ég var í við hv. þm. Steingrím J. Sigfússon, sá vandi að menn segja: Við verðum að eyða öllu sem við höfum því að annars lækkar fjárveitingin á næsta ári. Það er vont.