143. löggjafarþing — 34. fundur,  11. des. 2013.

fjáraukalög 2013.

199. mál
[22:31]
Horfa

Unnur Brá Konráðsdóttir (S):

Hæstv. forseti. Við ræðum frumvarp til fjáraukalaga fyrir árið 2013. Eins og fram hefur komið í umræðunni bíða flestallir þingmenn spenntir eftir því að við breytum og bætum það lagaumhverfi sem gildir um setningu fjárlaga og þar með fjáraukalaga vegna þess að allir sem hafa komið nálægt því að vinna fjárlagavinnu hafa fengið þá tilfinningu að það sé hægt að gera hlutina miklu betur.

Þegar maður er að gera áætlanir, eins og fjárhagsáætlanir eða fjárlög fyrir ríkið, eru ýmsir óvissuþættir. Það verður aldrei hægt að komast fram hjá því, t.d. áætlun varðandi tekjur og ófyrirséð útgjöld vegna náttúruhamfara. Skæðar flensur hafa áhrif á starfsmannahald o.s.frv. Draumurinn er sá að reyna að hafa fjárlögin sem nákvæmust og þannig að þau haldi sem best. Þess vegna fagna ég því að hér hefur verið lýst yfir, bæði af þeirri ríkisstjórn sem nú starfar og eins þeirri fyrri, að ný fjárreiðulög muni líta dagsins ljós og fara í gegnum þingið. Þá getum við í sameiningu farið yfir það með hvaða hætti við teljum þessum málum best fyrir komið.

Frú forseti. Ég átti þess kost að taka sæti á nokkrum fundum í fjárlaganefnd þegar mál þetta var í vinnslu, þegar þetta nefndarálit var unnið og þegar farið var yfir þær breytingartillögur sem hér liggja fyrir. Fyrst ber að fagna því að niðurstaðan lítur aðeins betur út en hún gerði þegar frumvarpið sjálft var lagt fram. Þar munar mestu að gert er ráð fyrir því að tekjurnar verði meiri, að innheimtan skili 5,3 milljörðum meira en gert var ráð fyrir í frumvarpinu sjálfu vegna þess að innheimta gjalda, aðallega virðisaukaskatts og tekjuskatts, hefur komið miklu sterkari inn á síðustu mánuðum ársins en áður var hægt að þora að spá. Það er mjög jákvætt og gott.

Fyrir okkur sem höfum þá skoðun að enn sé hægt að hagræða í ríkisrekstri og ná betri árangri, meiri og betri þjónustu fyrir borgara landsins fyrir það skattfé almennings sem þar rennur inn, skiptir auðvitað máli hver niðurstaða ársins 2013 er. Auðvitað eiga lokafjárlögin enn eftir að koma og niðurstaðan á þetta allt saman, en ég vona svo sannarlega að það verði enn betra útlit þegar það liggur fyrir.

Við getum gert betur og við sem höfum talað heilmikið í umræðunni um hagræðingu og ríkisfjármálin höfum þá skoðun að það sé gott að stefna að því að fjárlög séu hallalaus. Ég hef þó þá skoðun að það sé enn betra að skila afgangi og það þó nokkrum afgangi. Það er auðvitað ekki raunin sem blasir við okkur hér varðandi 2013, þvert á móti, og ég vona að að ári þegar við ræðum hér frumvarp til fjáraukalaga fyrir árið 2014 munum við ekki horfa á tölur eins og þær sem við erum að horfa á hér, að heildarjöfnuður sé samtals mínus 19,8. Ég trúi því að okkur muni takast betur að halda okkur við þá áætlun sem við erum að leggja fram með fjárlögunum sem nú eru til meðferðar í þinginu og ég trúi því að það verði hægt að innleiða meiri aga í fjárstjórn á Íslandi. Auðvitað mun það taka einhvern tíma en fjárreiðulögin eru það atriði sem vegur þyngst í þeirri málsmeðferð allri.

Ég tel nauðsynlegt að við tökum jafnframt til endurskoðunar markaðar tekjur. Sumar stofnanir fá markaðar tekjur og eru þannig svolítið í öðrum flokki en þær ríkisstofnanir og þau verkefni sem ekki hafa slíkar traustar, fastar tekjur og ég held að þetta sé verkefni fyrir fjárlaganefnd sem ég veit að hefur mikinn áhuga á að breyta þessum málum. Á síðasta kjörtímabili var jafnframt mikill áhugi á því í fjárlaganefnd og þar bar hæst fánann Ásbjörn Óttarsson, fyrrverandi þingmaður okkar sjálfstæðismanna. Ég hvet fjárlaganefndarmenn til dáða í því að halda áfram þeirri vinnu sem hafin er við skoðun á því að breyta þessu fyrirkomulagi.

Frú forseti. Nokkrar tillögur hér vekja athygli og þar langar mig að tala aðeins um Keili, Bifröst og Háskólann í Reykjavík þar sem verið er að leggja til að 15 millj. kr. verði færðar til hverrar þessara stofnana vegna frumgreinanáms. Það er gert vegna náms á framhaldsstigi, vegna aðstæðna á vinnumarkaði og vegna þess að það eru ónýttar fjárheimildir á liðnum. Það er gríðarlega mikilvægt að viðhalda menntunarstigi í landinu til að hagvöxtur aukist til framtíðar. Eftir því sem við erum með betur menntaða þjóð og leggjum meiri áherslu á að okkar ágæta námsfólk klári sitt nám og standi sterkt eftir nám sitt í íslenskum skólum megum við eiga von á því í framtíðinni að hagur okkar vænkist. Að sjálfsögðu eru menntamálin ein mikilvægasta hliðin á því að styrkja samfélag okkar til framtíðar. Þessir þrír skólar hafa lagt sig fram um að þjónusta þá nemendur sem vilja komast aftur inn í skólakerfið og komast á þann stað að þeir geti hafið og lokið háskólanámi. Það ber að fagna því sérstaklega að hér sé horft til þeirra varðandi það að geta komið sterkar inn í að þjónusta þennan hóp.

Frú forseti. Ég get ekki orða bundist um þann hug og þann anda sem ríkir í þeim hópi sem situr í fjárlaganefnd miðað við þá stuttu reynslu sem ég fékk um helgina af þeim störfum. Það er mjög mikilvægt að við séum með áhugasamt fólk í þessum störfum, þarna er unnið mikið starf og sérstaklega í desember er mikið álag á þingmennina í fjárlaganefnd, hvort heldur þeir eru í stjórn eða stjórnarandstöðu. Og það er mjög gott að sjá eftir að hafa komið þar inn sem varamaður að þar er vel haldið á málunum. Mig langar einfaldlega að nota tækifærið til að þakka fyrir samstarfið þennan stutta tíma sem ég fékk að vera og fagna því hugarfari sem ríkir í nefndinni varðandi aga í fjármálastjórn. Þetta er mikilvægt vegna þess að ef við ætlum að ná árangri til framtíðar verðum við auðvitað að vera með rétta hugarfarið. Mér finnst mjög athyglivert að fjárlaganefndarmenn beini spurningum sínum og sjónum að því með hvaða hætti er hægt að fara enn betur með fjármuni ríkissjóðs. Mig langar að kasta kveðju á þá þingmenn sem sitja í nefndinni og hvetja þau áfram til dáða. Það var ótrúlega gaman að fá að fylgjast með starfinu þarna inni og umræðunni í þingsalnum.

Svo vonast ég auðvitað til þess að þær ágætu tillögur sem hér liggja fyrir fái framgang í þingsalnum.