143. löggjafarþing — 34. fundur,  11. des. 2013.

fjáraukalög 2013.

199. mál
[22:40]
Horfa

Valgerður Bjarnadóttir (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég er sammála hv. þingmanni um eiginlega allt sem hún sagði. Ég er sammála henni í því að agi í fjármálum ríkisins er mjög eftirsóknarverður og nauðsynlegur. Ég er sammála henni um að það sé gott að skila afgangi, sérstaklega á meðan við skuldum, til að greiða niður skuldir. Það er hins vegar spurning hvort það sé nauðsynlegt að skila afgangi ef við skuldum ekki, hvort við getum ekki notað peningana. Kannski viljum við byggja upp einhverja sjóði og svona. Þegar þar að kemur verður skemmtilegt viðfangsefni og tilhlökkunarefni að eiga við það. Ég vona sannarlega að það takist sem hv. þingmaður segir.

Þessi fjárlög eru innan við 1% af landsframleiðslu eða 1% af frumjöfnuði, ég er ekki alveg klár á því hvaða mælieining það er eða man það ekki núna þegar klukkan er að verða ellefu. Vonandi tekst betur til því að öll viljum við stefna í þá átt, endilega setja ný fjárreiðulög og endilega afnema markaða tekjustofna. Ég er mjög sammála þessu öllu.

Þingmaðurinn fagnaði sérstaklega fjárveitingum til skóla sem taka við fólki sem hefur hætt námi og vill byrja aftur, eins og hjá Keili. Ég er sammála því, það er góðra gjalda vert, en þá langar mig að spyrja hana um verkefnið Nám er vinnandi vegur sem er tekið úr sambandi. Það er annars konar, það er atvinnulaust fólk, ungmenni sem ekki hafa fengið vinnu. Hvað finnst henni um að það sé fellt niður? Það er mix sem er í kringum (Forseti hringir.) þá fjárveitingu sem á svo að nota á næsta ári.