143. löggjafarþing — 34. fundur,  11. des. 2013.

fjáraukalög 2013.

199. mál
[22:45]
Horfa

Árni Páll Árnason (Sf):

Virðulegi forseti. Ég vil taka til máls í þessari umræðu um frumvarp til fjáraukalaga. Það er margt sem kemur upp í hugann þegar maður les þetta frumvarp og tillögur meiri hluta fjárlaganefndar. Þó að það sé kannski ekki efni í langar ræður hér í umræðu um fjáraukalögin sem slík þá er þyngra en tárum taki að skoða þá meðferð sem Rannsóknasjóður og Tækniþróunarsjóður fá. Auðvitað er það afleiðing af stefnu ríkisstjórnarinnar, sem er kannski annað og stærra mál að draga til baka, þ.e. þær hækkanir á framlögum í Tækniþróunarsjóð og Rannsóknasjóð sem gengist hefur verið í á undanförnum árum, en það er jafn sorglegt að sjá það verða að veruleika.

Menn gleyma því stundum af hverju ákveðið var að verja meira fé til þessara verkefna. Við höfum, eins og við vitum nú allt of vel, væntingar um norræna velferð og lifnaðarhætti en við erum með tekjur á áþekku stigi og Slóvakía. Þarna er himinhrópandi munur á milli og vandinn sem við stöndum frammi fyrir og kristallast nú í efnahagslífinu, og hefur gert svo oft á undanförnum áratugum, er sá að við erum í þeirri sjálfheldu að þær útflutningsgreinar sem við eigum, þótt öflugar séu, standa ekki undir greiðslu skulda. Það er lítill sem enginn jákvæður viðskiptajöfnuður í dag og um leið og kaupmáttur eykst eru allar líkur á því að hann fari út í veður og vind; innflutningur á neysluvörum eykst með tilheyrandi þrýstingi á gengið og allir vita hvert sú vegferð leiðir okkur — í verðbólgu og kjaraskerðingu.

Til að brjótast út úr þessum aðstæðum þarf aukna fjárfestingu í rannsóknum og þróun. Til þess að fyrirtæki, þekkingarfyrirtæki, vaxi hér að afli, fjölgi störfum í landinu þarf meiri fjárfestingu og þau þurfa stuðning. Framlög í þessa rannsóknarsjóði og Tækniþróunarsjóð skila samfélaginu miklu meiru en ríkið leggur til, þannig að að því leyti er þetta verra en að éta útsæðið. Það er verið að fara áratugi aftur í tímann í atvinnuþróun ef menn ákveða að hætta þeirri uppbyggingu sem gæti gefið okkur mikla fjölgun starfa og sífellt betri og verðmætari störf því að ríkisstjórnin er ekki með neitt annað plan, það er ekkert álver komið í Helguvík og það er ekkert annað að gerast hér.

Síðan er ástæða til að hafa áhyggjur af því sérstaklega hvaða áhrif þetta hefur á starfsskilyrði þeirra fyrirtækja sem hafa borið uppi þekkingarstarfið í íslensku atvinnulífi á undanförnum árum. Hér eru starfandi stórar þróunardeildir fyrirtækja sem eiga alþjóðlegar höfuðstöðvar. Ef hér er ekki fjármagn í Rannsóknasjóð og Tækniþróunarsjóð, ég tala nú ekki um ef endurgreiðsla rannsóknar- og þróunarkostnaðar er ekki með því besta sem gerist þá er hætt við að þessar deildir flytji annað. Það er ekki sjálfgefið að þær séu hér.

Varðandi einstaka þætti í þessu máli þá eru nokkur atriði sem mig langar sérstaklega að nefna. Í fyrsta lagi er það mál sem ég hef vikið hér að nokkrum sinnum í dag og í umræðum um fundarstjórn forseta og vakti máls á í andsvörum í gærkvöldi. Það er skítamixið í menntamálaráðuneytinu þar sem safnað er saman fjárveitingum á þessu ári til úrlausnar fyrir ungt atvinnulaust fólk og þeim breytt í þróunarfé vegna námskrár og styttingar framhaldsskólans á næsta ári. Þetta mundi orka tvímælis jafnvel þó að um væri að ræða jafngildar heimildir innan árs, en að flytja með þessum hætti fjármuni milli ára stenst enga skoðun. Ég hrósa meiri hluta nefndarinnar fyrir að átelja þessi vinnubrögð.

Mér finnst borðleggjandi að kalla eftir því að þetta frumvarp gangi til nefndarinnar milli 2. og 3. umr. til að þar gefist færi á því að kalla til fulltrúa Ríkisendurskoðunar og spyrja hvort þessi tilhögun standist fjárreiðulög og eðlilega reikningsskilahætti og hvort ekki sé með þessu verið að reyna að fara á svig við reglur um að fjárveitingar skuli nýtast innan árs. Ég hvet nefndina til að gera það og hrósa, eins og ég sagði, meiri hlutanum fyrir að vekja athygli á þessu og fyrir að gagnrýna þetta ráðslag. Ég held að það sé eiginlega óhjákvæmilegt í ljósi þess að maður efast um að þetta standist fjárreiðulög að kalla eftir fulltrúum Ríkisendurskoðunar milli 2. og 3. umr. til að fjalla frekar um þetta mál.

Ég er ekki að lýsa andstöðu við hugmyndir um styttingu framhaldsskólanáms, langt, langt því frá. Það verður að fara rétt að hlutunum og ef menntamálaráðherra vill setja af stað vinnu við það er eðlilegt að hann fari hefðbundna leið til þess, sæki um aukafjárveitingu í fjármálaráðuneytinu eða eftir atvikum til fjárlaganefndar og sú beiðni sæti þar sambærilegri meðferð og aðrar beiðnir úr öðrum ráðuneytum. Það er undarlegt fyrir þingmenn að lesa í þessu skjali að búið sé að búa til einhverja óskaplega „stassjón“ í menntamálaráðuneytinu, sem þingið hefur aldrei verið upplýst um, fyrir peninga sem voru ætlaðir í allt, allt annað verkefni. Þetta verklag er ekki til farsældar fallið.

Mig langaði aðeins að víkja að öðrum þáttum sem valda mér áhyggjum. Ég skil alveg að ríkisstjórn sem tekur við vilji breyta um stefnu. Ég skil alveg að hún vilji marka nýja atvinnustefnu eða stefnu að öðru leyti í landsmálunum og til þess hefur hún auðvitað umboð. Maður veltir samt fyrir sér tilgangi þess þegar við sem á Alþingi sitjum förum yfir mál, vinnum þau í þverpólitísku samstarfi ef ríkisstjórn virðir ekki þingvilja.

Hér var á síðasta kjörtímabili unnið mjög merkilegt brautryðjendastarf varðandi græna hagkerfið, nýjar leiðir til verðmætasköpunar, því að það er ljóst að fyrir efnahagsþróun landsins er mikilvægt að nýta græna atvinnustarfsemi. Hún fer vaxandi um öll lönd. Það er vaxandi spurn eftir vörum sem unnar eru á grænum forsendum. Það er vaxandi spurn eftir þekkingu á orkunýtingu og betri nýtingu umhverfisgæða. Í því öllu eigum við að geta staðið okkur vel. Það er vaxandi spurn eftir heilnæmri matvöru og þar höfum við einstaka stöðu sem matvælaframleiðsluþjóð sem hefur náð miklum árangri á örstuttum tíma eftir að markaðir opnuðust í kjölfar EES-samningsins, eins og í vöruþróun í sjávarafurðum. Við gætum náð sambærilegum árangri í landbúnaði ef markaðir fyrir útflutningsvörur okkar opnuðust betur því að þar er tækifæri, held ég, sem bíður bara eftir að springa út og verða að miklum vaxtarbroddi í íslensku efnahagslífi, þ.e. íslenskur landbúnaður sem útflutningsatvinnugrein. En til þess þurfum við opna markaði.

Áhersla á heilnæma matvælaframleiðslu jafnt á sjó og landi ásamt með áherslu á orkunýtingu og góð umhverfisgæði fellur líka að áherslum okkar sem ferðaþjónustulands. Hvað styður því við annað. Allt er þetta hluti af einni farsælli heild.

Þess vegna var frumkvæðið hér á síðasta kjörtímabili, um stefnumörkun á sviði græna hagkerfisins, svo mikilvægt. Það var unnið í kjölfar þingsályktunartillögu sem þáverandi hv. þm. Skúli Helgason lagði fram. Þá var unnið að stefnumörkun í þverpólitískri nefnd og síðan var aðgerðaáætlun samþykkt á Alþingi af öllum viðstöddum þingmönnum, með atkvæðum allra þeirra sem sátu í þingsal, 43 samhljóða atkvæða. Þetta var á þeim tíma sem við gátum eiginlega ekki verið sammála um nokkurn skapaðan hlut. Á síðasta kjörtímabili voru stöðug átök um alla hluti. Að því leyti var þetta svo mikilvægt. Þetta var jákvætt innlegg og allir flokkar, jafnvel þó að þeir hefðu ólíkar skoðanir á aðild að Evrópusambandinu og ólíkar skoðanir á þessum eða hinum þáttum í atvinnustefnu, sumir hlynntari stóriðju en aðrir o.s.frv., náðu saman um að það væru vaxtarkostir fyrir íslenskt efnahagslíf í hinu græna hagkerfi og það væri mikilvægt að rækta þá vaxtarkosti og byggja upp. Lykilforsendurnar þar eru auðvitað þekking og fagmennska. Í kjölfarið var sett á fót verkefnisstjórn og fjármagn sett til þessara verkefna.

Eins og ég sagði áðan skil ég að ríkisstjórnin komi að borðinu eftir ríkisstjórnarskipti með breytingar í huga, en mér finnst ekki skynsamlegt eða sérstaklega metnaðarfullt af ríkisstjórninni að ýta bara til hliðar öllum þeim þjóðþrifaverkefnum sem var svo óheppilegt, liggur mér við að segja, að skyldu lenda á fjárfestingaráætlun síðustu ríkisstjórnar. Það er eins og menn hafi bara ákveðið að segja: Ja, allt sem er smitað af þessari ófétis ríkisstjórn, allt sem er smitað af þessari fjárfestingaráætlun, sem hlýtur að vera vond af því að hún kom frá síðustu ríkisstjórn, fer út. Engin sjálfstæð greining fer fram á einstökum verkefnum, kostum þeirra eða göllum.

Græna hagkerfið hafði algera sérstöðu. Það var búið að leggja í mikla vinnu þvert á flokka og búið að samþykkja hér, eins og ég sagði, fyrst hugmynd um frekari vinnu og síðan verkáætlun í kjölfarið. Í lið 01-283 í fjáraukalagafrumvarpinu er gert ráð fyrir að felldar verði niður allar fjárveitingar til græna hagkerfisins sem hafa legið í ráðuneytinu þetta árið. Það hefði í sjálfu sér mátt velta því fyrir sér þar sem ríkisstjórn hafði það yfirlýsta markmið að auka fjárfestingar að þarna væri gott tæki fyrir hana, 280 milljónir, til að fara í ýmis fjárfestingarverkefni í sumar. En menn ákveða sem sagt að slá þetta af.

Búinn er til nýr liður, 01-305, sem kallast Græna hagkerfið og verkefni tengd vernd sögulegra og menningartengdra byggða og fornleifa o.fl. upp á 165,5 milljónir. Ég verð nú að segja eins og er að þegar ég sá þetta fyrst gladdist ég svolítið og hugsaði: Ja, ríkisstjórnin ætlar kannski að leggja einhverja áherslu á græna hagkerfið og halda áfram að vinna verkefni á forsendum hins græna hagkerfis og hún sýnir til þess metnað með þessu, hún gerir það með einhverjum öðrum hætti. Svo fletti ég upp skýringu í frumvarpinu við lið 01-305 og þá runnu á mig tvær grímur. Ég ætla að leyfa mér að lesa það, með leyfi forseta:

„Sótt er um“ — ég tek fram að í liðnum sem var felldur niður voru 280 milljónir — „165,5 milljóna framlag á þennan nýja fjárlagalið til verkefna sem tengjast græna hagkerfinu og verkefnum um vernd sögulegra og menningartengdra byggða og fornleifa o.fl.“

Gott og vel. En svo kemur:

„Ráðgert er að fjárheimildin verði einkum nýtt til tilfærslna á aðra liði ráðuneytisins vegna tímabundins stuðnings við mikilvæg og aðkallandi verkefni á sviði byggða- og þjóðmenningarverkefna sem talið er brýnt að bregðast við. Tillagan byggir á stefnuyfirlýsingu ríkisstjórnarinnar um að íslensk þjóðmenning verði í hávegum höfð, að henni hlúð og hún efld á næstu árum. Gert er ráð fyrir að framlaginu verði skipt þannig: Þjóðminjasafn Íslands 80 millj. kr. til úrbóta á aðstöðu safnsins til varðveislu þjóðminja …“

Vel að merkja, virðulegu þingmenn, ég er að lesa lýsingu á liðnum Græna hagkerfið og verkefni tengd vernd sögulegra og menningartengdra byggða og fornleifa o.fl. Fyrst er sem sagt Þjóðminjasafnið 80 milljónir — ekki er ég að gráta það að fé sé varið til þessarar mikilvægu stofnunar.

„Minjastofnun Íslands 70 millj. kr. vegna kostnaðar við sameiningu húsafriðunarnefndar við stofnunina og nýrra verkefna sem lögin kveða á um að stofnunin beri ábyrgð á og reyndust umfangsmeiri en áætlað var. Einkum er um að ræða húsnæðiskostnað, hönnunarvinnu, lögfræðikostnað og endurnýjun á tölvu- og tæknibúnaði.“

Svo fær aðalskrifstofa forsætisráðuneytisins 15,5 milljónir því að ráðuneytið „hefur undanfarna mánuði unnið að innleiðingu nýrra verkefna í samræmi við stefnuyfirlýsingu ríkisstjórnarinnar, m.a. hvað varðar vernd sögulegra og menningartengdra byggða, fornleifa o.fl. Hafin er vinna við gerð frumvarps til laga um verndarsvæði í byggð og gert er ráð fyrir að ráðnir verði sérfræðingur og ráðgjafar til þess að sinna þessum verkefnum.“

Ég held að þessi upptalning segi meira en mörg orð. Þetta er auðvitað ekki fjárlagaliður eða stefnumörkun um græna hagkerfið á nokkurn hátt. Þarna er sem sagt verið að hengja merkimiða græna hagkerfisins á lið sem er án efa mikilvægur, lið sem á að tryggja Þjóðminjasafninu peninga til að bæta aðstöðu safnsins og Minjastofnun peninga til að kosta sameiningu húsafriðunarnefndar við stofnunina og svo má lengi telja, en ekkert af þessu á nein tengsl við græna hagkerfið.

Þetta finnast mér dapurleg örlög þessarar merkilegu stefnumörkunar. Mér finnst satt að segja að sitjandi ríkisstjórn ætti að taka meira eignarhald á hugmyndinni um græna hagkerfið. Það var jú þverpólitísk samstaða um verkefnið. Þetta er tækifæri til verðmætasköpunar og jafnvel einfaldara en mörg þeirra stóru tækifæra sem menn bíða oft eftir upp á von og óvön hvort og hvenær geti orðið að veruleika.

Ég hefði frekar kosið að ráðuneytið hefði bara komið hreint fram, og ríkisstjórnin, og hætt einfaldlega fjárveitingum til græna hagkerfisins því að það er greinilega verið að því. Ég hef áhyggjur af því að ríkisstjórnin gangi býsna bratt fram í því að ryðja burt öllu því sem gert var í tíð síðustu ríkisstjórnar. Ég er ekki sannfærður um að það hafi allt verið til ills og ég held að ráðherrar ríkisstjórnarinnar og þingmenn hennar séu það ekki heldur, ef vel er að gáð. Ég held að menn geri sér alveg grein fyrir því að það var gott að efla Rannsóknasjóð og Tækniþróunarsjóð. Það hefði verið tilraunarinnar virði að reyna að klípa einhverja agnarlitla örðu úr bankaskattinum mikla. Þar sem ekki er endilega um að ræða verkefni sem þarf að vera viðvarandi er alveg hægt að sjá fyrir sér að skynsamlegt sé að nota tímabundnar tekjur eins og bankaskattinn, sem hverfur einhvern tíma þegar búið er að skipta búunum, til þess að efla til dæmis tækniþróun akkúrat á þessum tímapunkti. Það hefði mátt taka nokkra aukastafi til viðbótar á bankaskattinn í þágu tækniþróunar og kannski líka græna hagkerfisins til að byggja það upp.

Þetta er allt stefnumörkun sem núverandi stjórnarflokkar komu að með einum eða öðrum hætti. Ég ætla að segja þeim það til hróss að þetta var byggt upp með fjárveitingum til tækniþróunar- og rannsóknarsjóða í fyrri stjórnartíð þessara flokka upp úr aldamótum. Við héldum áfram með það verk og það er óþarfi að hætta því bara af því að við héldum áfram með það.