143. löggjafarþing — 34. fundur,  11. des. 2013.

fjáraukalög 2013.

199. mál
[23:15]
Horfa

Helgi Hjörvar (Sf):

Virðulegur forseti. Það er ástæða til að þakka fyrir þá góðu umræðu sem fram hefur farið um fjáraukalagafrumvarpið þó að við hefðum auðvitað gjarnan viljað sjá meiri þátttöku af hálfu stjórnarliða í henni, en það hefur nú aðeins borið á sjónarmiðum þeirra í umræðunni í kvöld sem betur fer.

Á þessu stigi í umræðunni höfum við farið býsna kirfilega yfir þau atriði þar sem beinlínis er verið að fara á svig við fjárreiðulögin og tilgang fjáraukalaga og einkanlega þau atriði sem meiri hluti fjárlaganefndar sjálfur átelur harðlega í tillögunum en gerir þó að sínum tillögum með því að breyta þeim ekki í samræmi við fordæmingar sínar á því framferði, m.a. með því að breyta tilteknum fjárveitingum í 300 millj. kr. fjárveitingu fyrir menntamálaráðherra sem virðist síðan augljóst að eigi að framlengja yfir á næsta ár. Það er auðvitað ekki tilgangur fjáraukalaga að útvega mönnum nýjar fjárheimildir fyrir næsta ár heldur þvert á móti að mæta ófyrirséðum útgjöldum á þessu ári.

Við höfum líka farið yfir fjölmörg atriði sem eru gagnrýnisverð og lagt fram einar fjórar breytingartillögur við fjáraukalagafrumvarpið. Við bindum auðvitað ekki síst vonir við það að meiri hlutinn sjái að sér hvað varðar Atvinnuleysistryggingasjóð og fallist á þá tillögu sem þar er uppi, enda held ég að vilji hæstv. félags- og húsnæðismálaráðherra standi til þess að þingið geri það. Menn hljóta líka að skoða þá alvarlegu stöðu sem meiri hluti fjárlaganefndar hefur af einhverjum ástæðum ákveðið að koma hæstv. utanríkisráðherra Gunnari Braga Sveinssyni í með því að hafna tillögum ríkisstjórnar Íslands um hans ráðuneyti.

Ég vil kannski í þessari ræðu, þegar langt er liðið á umræðuna, fá að nota tækifærið og í raun og veru fagna því sem frumvarpið sýnir okkur um árangur í ríkisfjármálum á undraskömmum tíma. Frá því að hafa verið hér í liðlega 200 milljarða hallarekstri tókst á örfáum árum að snúa því þannig að fjárlagafrumvarp yfirstandandi árs var lagt fram með aðeins 3,7 milljarða halla, sem er kannski u.þ.b. 0,2% af landsframleiðslu úr því að vera 15%. Þetta gerðist á aðeins fjórum árum og var gríðarlega mikill árangur. Þess vegna setti auðvitað ugg að mörgum þegar ný ríkisstjórn hafði af því áhyggjur og lýsti þeim á vordögum að ekki stefndi í 3,7 milljarða halla heldur 30 milljarða halla á yfirstandandi ári.

Það sem þetta frumvarp sýnir okkur í stóru myndinni í ríkisfjármálunum er að þær áhyggjur eru tilefnislitlar. Eins og þetta stendur núna er útlit fyrir að hallinn verði 19,8 milljarðar en ekki 30, og býsna mikill bati varð á þriðja ársfjórðungi og jafnvel vonir til þess að hluti af tekjunum gæti skilað sér enn betur.

Af þessum 19,8 milljörðum er það þannig að ný ríkisstjórn og skipti á stjórnarstefnunni hafa bæði leitt til tekjutaps upp á liðlega 5 milljarða a.m.k. og aukinna útgjalda upp á eina 3 milljarða, þannig að nærfellt helmingurinn af þessum tæplega 20 milljarða halla skýrist bara af því að það hafa farið fram kosningar í landinu og ný ríkisstjórn hefur tekið ákvarðanir sem hafa kostað fé bæði á tekju- og gjaldahlið. Það er bara lýðræðisleg ákvörðun þjóðarinnar í kosningum. Eftir stendur að það eru í kringum 11 milljarðar sem gæti orðið niðurstaðan úr fjárlögum fyrri ríkisstjórnar, í mínus sannarlega í heildarjöfnuðinum, þó að frumjöfnuðurinn sér orðinn jákvæður og hafi náð því fyrir allnokkru síðan. En þegar það er borið saman við fjárlögin fram lögð með tæplega 4 milljarða halla þá munar ekki stærri tölu en liðlega 7 milljörðum kr., trúlega ívið meira á tekjuhliðinni, kannski 4–5 milljörðum sem hún er veikari en ella hefði verið og síðan kannski 2–3 milljörðum á útgjaldahliðinni.

Þó að 7 milljarðar séu mikið fé hygg ég að maður hafi ekki séð minni frávik frá fjárlögum í fjáraukalögum í þann áratug sem ég hef setið hér. Við höfum auðvitað á árunum eftir hrun þurft að horfa upp á miklu hærri tölur vegna þess að inn á fjáraukann hefur komið einskiptiskostnaður eða áföll vegna einstakra þrotabúa eða aðrir slíkir hlutir sem hafa hlaupið á tugum milljarða. Á árunum fyrir hrun var það þannig að framúrkeyrsla á fjárlögum og fjáraukalögum hljóp árum saman á miklu hærri tölum en þessum. Þetta eru, þegar tekið er tillit til alls, rétt liðlega 1% af ríkisrekstrinum og innan við hálft prósent af landsframleiðslunni og auðvitað eru alltaf einhverjar skekkjur í öllu. Hér verður ekki fram hjá því horft að það hjálpar verulega í niðurstöðunni að vaxtakostnaðurinn verður umtalsvert minni en lagt var upp með í fjárlögum fyrir yfirstandandi ár þannig að ýmis framúrkeyrsla og veikleikar á tekjuhliðinni sleppa þess vegna.

Ég vildi kannski fyrst og fremst draga fram þessa jákvæðu þætti í heildarmyndinni af því að umræðan hefur auðvitað verið talsverð neikvæð því að það er í eðli fjáraukalaga að þar er tekið á ýmsum veikleikum og málum sem eru ekki góð, eru framúrkeyrsla eða rangar áætlanir eða einhverjir slíkir hlutir. Ég held að það sé líka mikilvægt fyrir okkur að draga það fram, af því að við erum nú að sigla inn í svartasta skammdegið og byrjun á nýju ári, að þó að við gagnrýnum einstök atriði, þó að margt í þessu frumvarpi mætti vera öðruvísi og að sumt af því sem hér er á ferðinni fari jafnvel á svig við a.m.k. ætlunina með fjáraukalögum, er það engu að síður þannig að við Íslendingar höfum á undraskömmum tíma, fimm árum, snúið gegndarlausum hallarekstri og botnlausri skuldasöfnun ríkissjóðs í það að við erum fyrir allnokkru síðan komin í frumjöfnuð í fjárlögunum, erum að nálgast það að vera réttum megin við í heildarjöfnuði og frávikin frá upphaflegum áætlunum eru komin niður úr því að vera tugir milljarða á hverju ári í það að hlaupa á nokkrum milljörðum kr. Það hygg ég nú að muni oftast ef ekki alltaf vera reyndin um framkvæmd fjárlaga vegna þess að auðvitað er ekki í jafn stórri fjárhagsáætlun og fjárlögum íslenska ríkisins hægt að áætla nákvæmlega upp á krónu hvern einasta lið.