143. löggjafarþing — 34. fundur,  12. des. 2013.

fjáraukalög 2013.

199. mál
[00:27]
Horfa

Steingrímur J. Sigfússon (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Það er nú ekki vegna þess að mig langi til að lengja umræðu hér fram á nótt eða það að suðið í hv. þm. Guðlaugi Þór Þórðarsyni um hvað allt hafi verið óhönduglegt og gengið illa á síðasta kjörtímabili angri mig svo mikið en hans venjubundni tónn leyndi sér ekki í þeim efnum, að allt hefði þetta náttúrlega gengið miklu verr en til stóð og hefði átt að vera.

Til að rétt sé rétt vil ég leiðrétta tölur sem hann fór með um markmið úr samstarfsáætlun Íslands og Alþjóðagjaldeyrissjóðsins um frumjöfnuð. Þar fór hv. þingmaður með alls úreltar tölur, væntanlega úr upphaflegu áætluninni sem var breytt, aðlöguð að breyttum aðstæðum og endurskoðuð sérstaklega haustið 2011 í samstarfi við og með fullum stuðningi Alþjóðagjaldeyrissjóðsins. Um þetta má allt saman til dæmis lesa í greinargerð með fjárlagafrumvarpi fyrir árið 2012 þar sem farið var yfir það og það stutt efnahagslegum rökum að mildari aðlögunaraðgerðir ættu að duga, m.a. í ljósi þess árangurs sem þá hafði þegar náðst, og þótti mörgum nógu harkalegt það sem gert hafði verið. Upphaflegu hugmyndirnar voru satt best að segja rosalegar um að fara þyrfti í aðgerðir hér upp á um 16% af vergri landsframleiðslu en niðurstaðan varð að endingu sú að um 11% ættu að duga til að ná heildarjöfnuði. Ferlið var mildað og stefnt að vægari markmiðum um afgang á frumjöfnuði fyrir árin 2012 og 2013 og jákvæðum heildarjöfnuði árið 2014. Til að rétt sé rétt skal þetta því tekið fram og ef hv. þingmaður trúir þessu ekki þá duga mín orð ekki til að sannfæra hann, en þá skal ég sýna fram á það með (Forseti hringir.) skjalfestum gögnum við betra tækifæri.