143. löggjafarþing — 34. fundur,  12. des. 2013.

fjáraukalög 2013.

199. mál
[00:29]
Horfa

Guðlaugur Þór Þórðarson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Við trúum því öll að þegar við förum yfir stöðu ríkisfjármála angri það hv. þm. Steingrím J. Sigfússon ekki neitt. Það er öllum ljóst sem hlustuðu á hann að það angrar hann ekki neitt að farið sé yfir þá stöðu.

Miðað við þær upplýsingar sem ég veit ekki betur en séu bestar varðandi þessa hluti þá vísa ég í frumjöfnuð fyrir ríkissjóð og voru rauntölurnar fyrir árið 2009 mínus 6,6%. Þetta er sem sagt fyrir ríkissjóð. Áætlunin gerði ráð fyrir mínus 1,6% 2010 en raunin varð mínus 5,5%. Áætlunin gerði ráð fyrir plús 2,7% 2011, raunin varð mínus 2,6%. Áætlun 2012 gerði ráð fyrir 5,7%, raunin varð 1,1% og áætlunin 2013 gerði ráð fyrir 7,9% en raunin er í kringum 1%. Þetta eru bestu upplýsingar sem ég hef.

Ég fór líka yfir aðra þætti sem snúa að agaleysi í fjárlögum, þá varðandi hvað mikið af fjárlagaliðum eru á heimild. Þar varð ákveðin breyting árið 2009, þetta hafði verið 27–29% fyrir árið 2008, fór niður í 20% 2009, 2010 var þetta 23%, 2011 30% en 2013 38%.

Ég hef engan áhuga á því að fara með rangar upplýsingar, þetta eru bestu upplýsingar sem ég hef haft og ég kannaði þær sérstaklega. Það er mikilvægt að vísa til þess og vera meðvitaður um það að hér á að tala um ríkissjóð því að eftir því sem ég best veit er frumjöfnuður líka fyrir ríki og sveitarfélög.