143. löggjafarþing — 34. fundur,  12. des. 2013.

nauðungarsala.

232. mál
[00:35]
Horfa

innanríkisráðherra (Hanna Birna Kristjánsdóttir) (S):

Virðulegur forseti. Ég mæli fyrir frumvarpi til laga um breytingu á lögum um nauðungarsölu, frumvarpi sem við vonumst auðvitað öll til að muni gefa heimilunum í landinu sem eru í hvað alvarlegustum fjárhagsvanda tíma og tækifæri til að fara yfir sín mál og meta hvort nýboðaðar aðgerðir vegna skuldavanda heimilanna geti komið í veg fyrir nauðungaruppboð.

Ég vil nota þetta tækifæri, virðulegur forseti, til að þakka þingheimi fyrir að sýna því skilning að taka málið hér fyrr á dagskrá en vænta mætti við eðlilega og hefðbundna málsmeðferð og einnig þakka þær móttökur sem ég býst við og vonast til að málið fái á þingi. Eins vil ég nota tækifærið til að þakka þeim sem hafa rætt málið á fyrri stigum og minnt okkur öll á mikilvægi þess að huga að þessu sérstaklega.

Eins og komið hefur fram, virðulegur forseti, stendur til að fara í aðgerðir. Þegar liggja fyrir tillögur er varða skuldamál heimilanna sem kynntar hafa verið og munu koma til framkvæmda. Miðað er við að þær aðgerðir komi til framkvæmda um mitt næsta ár. Þess vegna er lagt til í því frumvarpi sem ég mæli hér fyrir að nauðungarsölum verði frestað fram yfir þann tíma, þ.e. fram yfir mitt næsta ár.

Frumvarpið er í eðli sínu og innihaldi alveg eins og frumvarp sem var flutt hér árið 2009 þegar gerð var frestun á nauðungarsölum þannig að efnislega er það alveg eins og orðalagið er líka eins. Það á að mínu mati að auðvelda vinnslu þess á þinginu og tryggja að hægt sé að ganga til verksins eins hratt og mögulegt er vegna þess að þessi aðgerð skiptir máli fyrir mörg heimili í landinu.

Eins og þingheimur þekkir hefur verið nokkur umræða um þetta mál, m.a. í þingsal. Ég vil af því tilefni taka fram, eins og ég hef reyndar áður sagt úr þessum ræðustóli, að málið hefur verið til skoðunar á vettvangi ríkisstjórnar, aðallega á vettvangi innanríkisráðuneytisins en einnig í samvinnu við félags- og húsnæðismálaráðherra þar sem við höfum rætt ákveðnar aðgerðir er tengjast þingsályktunartillögu sem forsætisráðherra mælti fyrir síðasta sumar. Ég hef ítrekað sagt að við vildum skoða þetta verkefni samhliða þeim aðgerðum og einnig ítrekað sagt að við teldum, þ.e. meiri hlutinn á þingi, að frestunin á nauðungarsölum þyrfti að vera samhliða ákveðnum aðgerðum. Eins og þingheimur þekkir hefur verið óljósara með stjórnarskrárvarinn rétt þeirra sem eiga kröfurnar ef aðgerðin væri ekki tengd við ákveðnar tillögur sem nú liggja fyrir. Þess vegna er svo mikilvægt að ná að klára þetta samhliða þeim aðgerðum og tryggja að fjölskyldur fái þann tíma sem þeim er tryggður með þessu til að skoða hvort aðgerðirnar hafa þannig áhrif á fjárhag þeirra og einnig ráðstöfunartekjur að þær geti breytt stöðunni. Ég vona innilega, og veit að við gerum það öll, að þetta skili sér í því fyrir fjölskyldur í landinu að einhverjar þeirra komist undan því að fara í gegnum það ferli. Ég þarf ekki að árétta það fyrir þessum hópi hér sem hefur margítrekað rætt það. Ég held að við skiljum öll þá miklu sorg sem fylgir því fyrir fólk og fjölskyldur að lenda í þeim vanda sem við ræðum hér. Það er auðvitað gríðarlega erfitt að þurfa að horfa upp á heimili sitt fara í nauðungarsölu, ekki bara fyrir einstaklinga og fjölskyldur, heldur fyrir samfélagið allt.

Það er líka rétt eins og ég hef áður nefnt úr þessum ræðustóli varðandi þetta mál að það er mikilvægt að við ræðum þessi mál af yfirvegun og förum eins rétt með staðreyndirnar og mögulegt er í þessum málum. Þess vegna vil ég halda því til haga og minna okkur á, ekki til að gera lítið úr málinu því að það er stórt, viðkvæmt og erfitt, að þrátt fyrir allt er sá fjöldi sem á þessu ári hefur horft upp á þennan vanda svipaður og hann var til dæmis árið 2003. Þetta er þar af leiðandi ekki nýtt vandamál, ekki vandamál sem einungis fylgdi því að hér urðu miklar efnahagshremmingar, heldur er þetta staða sem íslenskt samfélag hefur staðið frammi fyrir, líkt og öll önnur samfélög.

Til að halda því til haga hefur nauðungarsölum fækkað frá því að fjöldinn var sem mestur í kringum árið 2010. Það þýðir að einhverjar þeirra aðgerða sem gripið var til gagnvart þeim sem harðast höfðu orðið út í þeim hremmingum sem urðu í kjölfar bankahrunsins hafa með einhverjum hætti komið fjölskyldum til varnar þannig að fjöldinn er minni en hann var á þeim tímum þegar erfiðast var.

Á síðasta kjörtímabili voru gerðar breytingar en einnig ber að hafa í huga að þó að eign sé seld nauðungarsölu var því breytt af hálfu þingheims þannig að fólk missti ekki heimili sín strax, heldur hefur fólk í nokkurn tíma átt kost á því að dvelja í húsnæði sínu í 12 mánuði eftir það ferli.

Þetta þekkjum við og er mikilvægt líka að halda til haga um leið og við ræðum þetta mál.

Nauðungarsölur eru sem betur fer færri en þær hafa verið á hörðustu árunum í kringum bankahrunið vegna þess að lögum var þannig breytt að fjölskyldur gátu fengið að búa lengur í eignum sínum. Af því má sjá að reynt hefur verið að grípa til ákveðinna aðgerða. Af fremsta megni hefur verið reynt að ná samningum milli aðila í gegnum þetta ferli til að koma í veg fyrir að nauðungarsala gangi í gegn.

Því miður næst það samt ekki alltaf. Því miður er fjöldi þessara eigna of mikill, fjöldi þeirra sem missir heimili sín með þessum hætti allt of mikill. Þess vegna grípum við til þessara aðgerða þegar gengið hefur verið frá þeim tillögum er lúta að skuldamálum heimilanna sem þannig eru útfærðar og voru útfærðar af sérfræðingahópi sem hefur starfað að málinu í nokkuð langan tíma. Útfærslan á þeim er talin vera þannig að hún geti hjálpað heimilum. Þess vegna teljum við okkur geta gripið til þessara aðgerða núna, sérstaklega og kannski ekki síst vegna þess að aðgerðirnar fela það í sér að komi til niðurfellingar og lækkunar á höfuðstól gengur það fyrst til vanskila ef einstaklingar hafa staðið frammi fyrir því, auk þess sem þessar aðgerðir eru taldar geta aukið ráðstöfunartekjur almennings sem líka geta komið til móts við þessi heimili.

Virðulegur forseti. Með því frumvarpi sem hér er lagt fram getur gerðarþoli nauðungarsölu óskað þess að nauðungarsöluaðgerðum verði frestað. Hér er miðað við að það verði til 1. júlí 2014 á húsnæði sem telst vera heimili viðkomandi samkvæmt skilgreiningu í lögum þar um.

Þá er lagt til að sýslumaður taki ekki ákvörðun um að hefja nauðungarsölu eigna fyrr en eftir þann tíma og á það við um allar eignir sem teljast heimili gerðarþola, sama hvar þær eru staddar í ferlinu. Það skiptir miklu máli að orðalagið sé með þessum hætti, sem þýðir að heimili þar sem uppboði hefur ekki verið lokið eða boð á almennum markaði samþykkt er hægt að fara fram á að fresta þeim aðgerðum fram yfir þann tíma sem ákveðinn verður í þessu frumvarpi. Það skiptir máli vegna þess að eins og við þekkjum eru nauðungarsölur ákveðið ferli. Þarna er verið að árétta að þó að það sé hafið geta einstaklingar og fjölskyldur óskað eftir fresti, þ.e. ef ekki er búið að ganga frá sölunni eða ef búið er að fara fram uppboð. Þetta skiptir marga miklu máli.

Ég vil líka, virðulegur forseti, láta þess getið að í kjölfar þess að frumvarpið var lagt fram var öllum sýslumönnum landsins sent bréf frá innanríkisráðherra þar sem óskað var eftir því að þeir upplýstu stærstu kröfuhafa um efni frumvarpsins með tilliti til þeirra heimila sem fara eiga í fullnustuaðgerðir vegna nauðungarsölu í þessari viku. Samkvæmt upplýsingum frá sýslumönnum eru sem betur fer þau heimili sem hefðu átt að fara í meðferð í þessari viku fá. Því hefur verið komið mjög skýrt áleiðis til sýslumanna að reyna að tryggja að ekki fari fram nauðungarsölur í þessari viku með tilliti til þess að þessir hlutir eru að fara að gerast.

Þær jákvæðu fréttir hafa einnig borist að kröfuhafar, m.a. bankar og lífeyrissjóðir, hafa ákveðið að fresta fullnustuaðgerðum þessa vikuna vegna frumvarpsins. Við hljótum að fagna því. Þingmenn hafa, m.a. í þessum sal, hvatt kröfuhafa, banka, lífeyrissjóði og aðra, til að vinna þannig að málinu og það virðist hafa skilað árangri.

Ég vil upplýsa þingheim um það að ég fékk mjög jákvæð viðbrögð frá sýslumönnum vegna þessara fyrirhuguðu aðgerða og vegna þess hvernig málið er tengt saman við þær aðgerðir sem við förum í vegna þess að í þeim felst ákveðin von. Ég vil einnig geta þess til upplýsingar fyrir þingheim, aðallega til meðferðar fyrir hv. allsherjar- og menntamálanefnd, að sýslumenn hafa í þeim bréfum sem þeir hafa skrifað mér í kjölfar málsins vakið athygli á og óskað eftir því þótt óformlega sé, vegna þess að þeir koma því sjálfsagt áleiðis til nefndarinnar, að þeir eru þeirrar skoðunar margir hverjir að fresturinn þyrfti að vera aðeins lengri. Það er réttarhlé á þessum tíma og það ræðst af því að þeir telja og benda þess vegna á, hafa gert það í bréfi til mín og þess vegna geri ég það formlega, að að þeirra mati gæti verið farsælla að lengja þann tíma sem um ræðir. Það er miðað við 1. júlí í fyrirliggjandi frumvarpi, en þeir hafa velt því upp og óskað eftir því að það verði skoðað að fresturinn nái til 1. september. Ég geri engar athugasemdir við það og í innanríkisráðuneytinu er það ekki talið hafa nein áhrif á lagastoð málsins eða réttarfarslega stöðu þess gagnvart stjórnarskrá o.s.frv., enda má ætla að aðgerðir er lúta að skuldamálum heimilanna og eru notaðar sem rökstuðningur fyrir þessari aðgerð verði fullnustaðar á þeim tíma. Það er hægt að rökstyðja það að almenningur þurfi örlítið lengri tíma þannig að ég legg það í hendur nefndarinnar að skoða hvort það muni miklu.

Þeir sýslumenn sem á þetta hafi bent telja að 1. júlí sé eilítið erfið tímasetning er þetta varðar. Ég vildi koma því áleiðis hér.

Rétt er einnig að taka fram að þegar þetta var gert í síðasta skipti árið 2009 var ekki um sjálfvirka frestun allrar nauðungarsölu að ræða, heldur verður gerðarþoli sjálfur að óska eftir slíkri frestun. Það er hins vegar ekki gerð krafa um að samþykki kröfuhafa liggi fyrir svo veita megi frestinn, en heimildin er bundin við fasteignir þar sem gerðarþoli heldur heimili og hefur skrásett lögheimili, enda sé um að ræða húsnæði sem ætlað er til búsetu samkvæmt ákvæðum skipulags- og byggingarlaga.

Virðulegur forseti. Ég ítreka þakkir mínar til þingsins fyrir að taka málið fljótt og örugglega á dagskrá, ítreka mikilvægi þess og vonir um að það fái hraða og örugga afgreiðslu til að tryggja að þær fjölskyldur sem standa frammi fyrir þessum veruleika í dag geti hallað sér upp að því frumvarpi sem hér liggur fyrir og vonandi þeim lögum sem við samþykkjum fljótt og örugglega til að fólki gefist ráðrúm til að meta hvort fyrirhugaðar aðgerðir hafi áhrif á stöðu þess til framtíðar.