143. löggjafarþing — 34. fundur,  12. des. 2013.

nauðungarsala.

232. mál
[00:50]
Horfa

innanríkisráðherra (Hanna Birna Kristjánsdóttir) (S) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég tek undir það sem fram kemur hjá hv. þingmanni og varðar aðgerðir sem gripið var til á síðasta kjörtímabili og lutu að þessum hópi sem hvað verst var staddur. Ég sagði það áðan í framsöguræðu minni að tölurnar staðfestu og sýndu að þær aðgerðir skiluðu árangri fyrir hóp af þessu fólki þar sem nauðungarsölum hefur blessunarlega fækkað. Það ber merki þess að það tókst alla vega að hindra það að áfram yrði fjölgun líkt og verið hafði verið árin á undan. Þannig að ég geri ekki lítið úr því.

Hvað varðar hins vegar það sem nefnt er, af hverju ekki var gripið til aðgerðanna í vor, sögðum við það ítrekað — og við getum deilt um það hér í alla nótt og sjálfsagt langa og marga sólarhringa í viðbót, en okkar skoðun í ráðuneytinu og meðal sérfræðinga var sú að um það gæti verið lagaleg óvissa hvort það mundi standast að gera það án þess að við hefðum fyrir því föst og trygg rök. Þess vegna var ítrekað sagt úr þessum ræðustól og annars staðar, að það yrði skoðað hvort aðgerðirnar sem farið væri í væru taldar nýtast þannig að hægt væri að réttlæta það með sanngjörnum og eðlilegum hætti að grípa til þeirra aðgerða sem nú er verið að boða.

Í ljós kemur að þær aðgerðir, sem kynntar voru, eru þess eðlis að þær geta nýst fólki sem stendur frammi fyrir nauðungarsölu. Það var ekki sjálfgefið að þær gerðu það, en þær eru þess eðlis að við teljum að þær geti nýst ákveðnum hópi hvað það varðar. Þess vegna er þessi tímasetning sem alltaf hefur legið fyrir. Við hljótum, held ég, að fagna því að aðgerðirnar séu þess eðlis. Það var ekki sjálfgefið. Það var vandinn sem við stóðum frammi fyrir.

Ég tek undir það með hv. þingmanni, ég held reyndar að hann viti það jafnvel betur en ég sem stóð í stafni hér á mörgum erfiðum árum, að það er engin ein leið sem leysir allra vanda. Við stöndum frammi fyrir því. En engu að síður tel ég það sannarlega þess virði að gefa fólki þann tíma og það tækifæri sem við gefum með þessu frumvarpi.