143. löggjafarþing — 34. fundur,  12. des. 2013.

nauðungarsala.

232. mál
[00:56]
Horfa

Jón Þór Ólafsson (P):

Herra forseti. Ég vil byrja á því að hrósa og þakka Hönnu Birnu Kristjánsdóttur, hæstv. innanríkisráðherra, fyrir þetta frumvarp. Með því sýnir hún að hún ætli að halda virkilega vel á þessu máli.

Skjólið sem þetta frumvarp veitir þýðir eins og hæstv. ráðherra benti á að innan þess tíma sem frestunin mun gilda verður búið að leysa úr ákveðnum málum fyrir dómstólum. Þar á hv. innanríkisráðherra aftur þakkir skilið fyrir frumvarp sem hún fékk samþykkt á sumarþingi um flýtimeðferð á dómsmálum sem hafa að gera með verðtryggingu og gengistryggingu. Nú hafa Hagsmunasamtök heimilanna farið af stað með dómsmál um lögmæti verðtryggingar á neytendalánum. Það er alveg ljóst að húsnæðislán féllu undir lagaramma neytendalána árið 2001 með lagabreytingu. Þetta hef ég fengið staðfest frá Neytendastofu. Þannig að innan þess skjóls sem hæstv. innanríkisráðherra er núna að kalla eftir að þingheimur veiti verðum við að öllum líkindum búin að fá niðurstöðu í dómsmál Hagsmunasamtaka heimilanna. Það ætti að taka tvo, kannski þrjá mánuði með flýtimeðferð.

Það þýðir að þá fáum við niðurstöðu og á meðan er ekki verið að selja ofan af fólki, selja heimili fólks á grundvelli lánasamninga sem eru með mögulega ólögmæta skilmála, í þessu tilfelli um verðtryggingu. Við erum búin að fá gengistrygginguna staðfesta, þarna fáum við verðtrygginguna innan þessa skjóls. Þetta er gríðarlega mikilvægt. Þetta er það sem við höfum verið að kalla eftir.

Ég vil bara aftur þakka og hrósa hæstv. ráðherra Hönnu Birnu Kristjánsdóttur fyrir þetta frumvarp og mun að sjálfsögðu styðja það.