143. löggjafarþing — 34. fundur,  12. des. 2013.

nauðungarsala.

232. mál
[00:59]
Horfa

Silja Dögg Gunnarsdóttir (F):

Virðulegi forseti. Heimilið á að vera griðastaður, staður þar sem frið og öryggi er að finna. Allir eiga að eiga þess kost að eiga heimili, eiga sitt hreiður. Núverandi ríkisstjórn leggur áherslu á að verja heimilin í landinu. Við sögðum í kosningabaráttunni í vor að við mundum standa með íslenskum heimilum og það erum við að gera og það munum við halda áfram að gera.

Í júní var aðgerðaáætlun í tíu liðum samþykkt á Alþingi sem miðar að því að leysa skuldavanda heimilanna. Nú þegar hafa nokkrir liðir í þeirri áætlun komið til framkvæmda. Fyrsti liðurinn fjallaði til að mynda um að setja á fót sérfræðingahóp sem útfærði mismunandi leiðir til að ná fram höfuðstólslækkun verðtryggðra húsnæðislána og gera tillögur þar að lútandi. Þeim áfanga var náð þann 30. nóvember síðastliðinn og ber flestum saman um að skuldaleiðréttingaráætlunin sé skynsamleg og vel útfærð og umfram allt sanngjörn.

Samkvæmt framlagðri áætlun um skuldaleiðréttingu hefjast aðgerðir um mitt næsta ár. En hvers eiga þeir að gjalda sem eru í vanskilum nú og sjá fram á að missa jafnvel heimili sín áður en leiðréttingarnar koma til framkvæmda? Að mínu mati eiga heimilin alltaf að njóta vafans, ekki fjármálafyrirtæki.

Því fagna ég framlögðu frumvarpi um breytingar á lögum um nauðungarsölu sem hæstv. innanríkisráðherra Hanna Birna Kristjánsdóttir mælir nú fyrir og styð það heils hugar.

Með gildistöku laganna ber sýslumanni að verða við ósk gerðarþola um að fresta fram yfir 1. júlí 2014 töku ákvörðunar um byrjun uppboðs eða ráðstöfun eignar á almennum markaði ef leitað er nauðungarsölu á grundvelli 6. gr. á fasteign þar sem gerðarþoli heldur heimili og hefur skráð lögheimili. Þá gefst skuldurum tími til að leggja mat á aðgerðirnar og þau áhrif sem þær hafa á skuldastöðu.

Þetta frumvarp var það sem íslensk heimili þurftu að fá fyrir jólin. Loksins smásanngirni og von um bjartari tíma. Íslenskum heimilum hefur verið haldið í gíslingu síðan haustið 2008. Núverandi ríkisstjórn vinnur nú að því að frelsa íslensk heimili úr þeirri prísund. Aðgerðir eru hafnar en þeim er langt í frá lokið.