143. löggjafarþing — 34. fundur,  12. des. 2013.

nauðungarsala.

232. mál
[01:05]
Horfa

Svandís Svavarsdóttir (Vg):

Virðulegi forseti. Við ræðum frumvarp til laga um breytingu á lögum um nauðungarsölu, nr. 90/1991. Eins og hér hefur komið fram er almennur stuðningur við málið og ég vænti þess að það gangi hratt og örugglega til nefndar og í gegnum skoðun hjá henni eins og vera ber til uppbyggilegrar meðferðar. Ég geri ekki ráð fyrir því að þar séu mörg álitamál um framkvæmd annars vegar og löggjöf hins vegar, þau höfum við séð áður og vitum í sjálfu sér hver grundvöllurinn er og hverjir núningsfletirnir eru.

Mig langar í tengslum við þessa umræðu að nefna sérstaklega þingsályktunartillögu sem var mælt fyrir á sumarþingi og svo aftur á dögunum, hún er nú til umsagnar hjá allsherjar- og menntamálanefnd. Það er þingsályktunartillaga sem þrír þingmanna Vinstri grænna fluttu og hv. þm. Ögmundur Jónasson mælti fyrir hér í þinginu. Sú tillaga er sömu gerðar og tilgangur hennar er í raun og veru að reisa þær varnir sem hér eru lagðar til, þó að hér sé um að ræða aðra nálgun til að skýra lagaumhverfi málsins.

Tilefnið á sínum tíma, að koma svo snemma með málið, mjög fljótlega eftir kosningar, var einmitt það sem hér hefur aðeins komið fram í samtölum þingmanna undir þessum lið. Það er í raun og veru sú óvissa sem kviknaði strax þegar hæstv. ríkisstjórn tók við og kynnti sínar aðgerðir og tíu liða aðgerðaáætlun í formi þingsályktunartillögu sem var kynnt og samþykkt í þinginu. Þar er áætlun um tiltekna þætti sem að sumu leyti fólust í löggjöf og sumu leyti voru þar hópar og sérfræðingahópar o.s.frv. sem áttu að vinna tillögur. Hluti af þeim aðgerðum er sem sagt kominn fram í dagsljósið. Við vitum núna betur hvað þær fela í sér.

Þó langar mig að taka aðeins undir varnaðarorð og vangaveltur varðandi þau mál öll, vegna þess að ástæðan fyrir því að við lögðum tillöguna fram á sínum tíma var einmitt þessi óvissa, við vissum ekki nákvæmlega hvað var í pípunum. Óvissunni hefur raunar ekki verið fullkomlega eytt, þannig að við vitum ekki nákvæmlega að hve miklu leyti aðgerðirnar koma til móts við stöðu hvers og eins. Þó að jafnaði sé rætt um aðgerðir hæstv. ríkisstjórnar sem almennar aðgerðir hefur það jafnframt verið kynnt að aðgerðirnar séu þeirrar gerðar að litið sé til stöðu hvers og eins, bæði skuldastöðu viðkomandi en ekki síður þess hvaða aðgerðir fyrri ríkisstjórnar hafa komið til móts við stöðu hans. Þær komi að miklu leyti til frádráttar á þeim aðgerðum sem nú hafa verið kynntar.

Það má því segja að óvissunni hafi ekki verið eytt að fullu. Það er að mörgu leyti á skjön við það sem hæstv. forsætisráðherra talaði um á sínum tíma og var nú býsna brattur alveg fram undir blaðamannafundinn í Hörpu þar sem hann taldi að aðgerðunum mundi fylgja reiknivél á netinu þar sem fólk gæti bara flett því upp nákvæmlega hvað það fengi í sinn hlut og hvernig aðgerðirnar kæmu til móts við stöðu viðkomandi. Það er örugglega ekki alveg handan við hornið að hver og einn geti séð sína stöðu eða hvernig aðgerðirnar komi til móts við hann eða hana. Það sem stendur því upp úr er í raun og veru að óvissunni hefur ekki verið fyllilega eytt.

Það frumvarp sem hér er lagt fram á jafn vel við núna og það átti við í vor sem leið og sumar en það má auðvitað velta því fyrir sér hvað hefur verið í gangi hjá þeim heimilunum sem erfiðasta stöðu hafa upplifað frá kosningum og fram að þessari löggjöf. Okkur mátti öllum vera ljóst að vandinn væri fyrir hendi og aðgerðunum væri ætlað að koma til móts við þau heimili sem þyrftu á því að halda. Maður veltir þess vegna fyrir sér, mér finnst það umhugsunarefni án þess að ég ætli að dvelja við það sérstaklega, hverju sætir að þessi frumvarpssmíð var ekki hluti af áætluninni eða þingsályktunartillögunni sem unnið var með í þinginu í sumar. Maður hefði mátt ætla að þessi þörf lægi fyrir, raunar enn þá frekar vegna þess að þingmenn sem höfðu setið í fyrri ríkisstjórn og haft þá reynslu sem hún hafði gengið í gegnum með sínar aðgerðir höfðu beinlínis vakið máls á því, bæði í umræðum um þingsályktunartillöguna títtnefndu en ekki síður beinlínis með framlagningu þingmála eins og þess sem hér er minnst á og fyrsti flutningsmaður að var hv. þm. Ögmundur Jónasson.

Svo er það auðvitað þannig eins og kom fram í andsvari hv. þm. Steingríms J. Sigfússonar við hæstv. ráðherra að vandi löggjafans er mikill og í mörgum efnum, en kannski ekki síst í svona tilviki þar sem verið er að tala um að löggjöfin snúist um að hverfa frá meginreglu, þ.e. að skapa tímabundið ástand þar sem meginregla gildir ekki. Því tímaramminn er aldrei hafinn yfir vafa, þ.e. nákvæmlega hvaða tímarammi gildir.

Í öðru lagi er veruleikinn sá, það höfum við held ég öll horfst í augu við, bæði í stjórn og stjórnarandstöðu, að vandi þeirra sem skulda af íbúðarhúsnæði er svo margþættur. Hann er ekki bara settur saman af einu efnahagshruni heldur líka af alls konar ákvörðunum öðrum. Þess vegna er alltaf viðfangsefni á hverjum tíma að greina ástæður og það er viðfangsefni sem er eiginlega óleysanlegt; að greina í sundur ástæður þess vanda sem viðkomandi stendur frammi fyrir. Það er vegna þess að vandinn er alltaf samsettur sem og viðfangsefnið.

Aðgerðunum er ætlað að vera markvissar og þeim er ætlað að taka á tilteknum efnahagsvanda sem hefur í umræðunni verið kallaður forsendubrestur. Þá er viðfangsefnið það að miða aðgerðina við þann hluta. En hvernig í ósköpunum má greina þann hluta frá öðrum ástæðum fyrir þeirri stöðu sem viðkomandi er í? Það er nánast óvinnandi vegur að gera það.

Þannig að sanngirnissjónarmiðin annars vegar og hins vegar það að hver er sinnar gæfu smiður og allir bera ábyrgð á sínum skuldbindingum o.s.frv., vegast alltaf á og munu alltaf gera það. Þau gerðu það líka á fyrri tímum þegar kynslóðirnar á undan okkur sem hér erum gengu í gegnum verðbólguskeið og verðtryggingar og vaxtasprengingar og verðtryggingarbólur og allt mögulegt í gegnum tíðina. Það er líka hluti af þeim efnahagslega veruleika sem Ísland hefur búið við um árabil. Það sem við erum nákvæmlega að gera og hæstv. ríkisstjórn hefur freistað þess að ná utan um, og liggur mér við að segja að sigta frá öllu öðru, er verulega mikil áskorun. Að taka bara þennan þátt og sigta hann frá öllu öðru sem veldur vanda hvers og eins er býsna mikil áskorun. Svona aðgerð sem víkur frá meginreglu þessa hluta íslensks réttarfars, að taka ákvörðun um slíkt tímabil, er líka mikil áskorun vegna allra þeirra þátta sem ég fór hér yfir.

Virðulegi forseti. Ég ætla ekki að hafa þetta mál lengra, en árétta að þingflokkur Vinstri grænna mun styðja málið og gera það sem í hans valdi stendur til þess að greiða málinu leið í gegnum þing og nefnd.