143. löggjafarþing — 34. fundur,  12. des. 2013.

nauðungarsala.

232. mál
[01:15]
Horfa

innanríkisráðherra (Hanna Birna Kristjánsdóttir) (S):

Virðulegur forseti. Ég vil fyrst og síðast loka þessari umræðu með því að þakka fyrir viðbrögð þingmanna og þær jákvæðu undirtektir sem þetta mál fær og ítreka þakkir vegna þeirrar afgreiðslu sem er hraðari en vanalega. Ég vona innilega að í nefndinni takist einnig að hraða málinu og held að það sé mikilvægt fyrir alla aðila að við klárum það í góðan tíma fyrir hátíðarnar.

Ég vil líka þakka þeim þingmönnum sem hafa komið hér með ágætisábendingar. Ég átta mig afar vel á því og hef farið margsinnis í gegnum það í huganum og einnig í vinnu í ráðuneytinu og á vettvangi ríkisstjórnarinnar hvaða tímasetning væri best í þessu. Sjálfsagt er engin tímasetning sú algilda eða sú eina rétta. Það hefur verið rætt hér um hvers vegna — og hv. þm. Svandís Svavarsdóttir nefndi sérstaklega, og hið sama gerði Steingrímur J. Sigfússon, hvort ekki hefði verið tilefni til að fara í þessa frestun um leið og við tók ný ríkisstjórn. Það var auðvitað farið yfir það. En eins og ég hef margsinnis sagt var talið, og vegna raka sem ég ætla ekki að rekja hér eina ferðina enn, farsælast að bíða og sjá hvaða aðgerðir yrðu boðaðar og hvaða aðgerðum þessir sérfræðingar mundu mæla með og skoða þær aðgerðir út frá því að hægt væri að hjálpa þeim heimilum sem verst eru stödd, alla vega hluta þeirra.

Það var sú ákvörðun sem var tekin. Ég held, og vil bara halda því til haga, virðulegur forseti, af því ég er þeirrar skoðunar að fyrrverandi ríkisstjórn hafi líka reynt að gera það sem í hennar valdi stóð við þær aðstæður sem hún horfðist í augu við til að koma til móts við þau heimili sem verst eru stödd, en það hefði mátt færa sömu rök, af því við erum að ræða hér um tímasetningar, fyrir því að menn hefðu átt að fresta nauðungarsölum í byrjun síðasta árs. Það var í umræðunni alla kosningabaráttuna, við þekkjum það öll sem tókum þátt í henni. Þó svo að frambjóðendur hafi með misjöfnum hætti talað um lausnir í skuldamálum heimilanna, töluðu allir um ákveðnar lausnir. Þá töluðu allir um mikilvægi þess að koma til móts við þau heimili sem verst væru stödd.

Með sama hætti og hægt er að spyrja núverandi ríkisstjórn um þessa tímasetningu þá væri hægt að spyrja fulltrúa fyrrverandi ríkisstjórnar: Af hverju ekki fyrr og af hverju ekki tímasetningin í byrjun árs o.s.frv?

Ég ætla ekki að dvelja við það. Aðalatriðið er það að ég veit alveg hvaða rök voru fyrir því á sínum tíma hjá þáverandi ríkisstjórn, sem eru sambærileg rök og hjá núverandi ríkisstjórn, að svona ákvörðun, vegna þess að hún er ákvörðun um að fara ekki almenna leið, verði að vera vel undirbyggð og tryggt að hún nýtist almenningi eins vel og hægt er og tryggt að hún standist alla skoðun lagalega.

Þannig að ég árétta að ég er þakklát fyrir þær móttökur sem þetta fær, er sannfærð um að þetta gefur almenningi þann tíma og það rými sem fólk þarf til að fara yfir það. Það er líka rétt sem fram kom í máli hv. þm. Svandísar Svavarsdóttur hér áðan og þess vegna er tímafresturinn gefinn til þess einmitt að fjölskyldurnar fái tækifæri til að skoða nákvæmlega hvað þetta þýðir fyrir þeirra fjárhagsstöðu, ráðstöfunartekjur og framtíðarhorfur. Þess vegna er tímafresturinn gefinn og þess vegna er hann mikilvægur.

Fyrst og síðast held ég að það sé farsælla fyrir okkur að klára málið, ég er þakklát fyrir það hversu góð samstaða næst um það og vona innilega að það nýtist fjölmörgum úr þeim hópi sem stendur frammi fyrir þessum veruleika.