143. löggjafarþing — 34. fundur,  12. des. 2013.

nauðungarsala.

232. mál
[01:19]
Horfa

Sigríður Ingibjörg Ingadóttir (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Ég ætla ekki að rjúfa þá samstöðu sem er um þetta mál í þessum sal, en í ljósi þess að hæstv. ráðherra segir að ekki hafi þótt eðlilegt að leggja málið fram fyrr en fyrir lægju tillögur frá hópi hæstv. forsætisráðherra vaknar óneitanlega spurning.

Í þeim tillögum er, eins og hv. þm. Svandís Svavarsdóttir sagði, gert ráð fyrir því að aðgerðir fyrri ríkisstjórnar komi til frádráttar. Í aðgerðum fyrri ríkisstjórnar var reynt að mæta þeim sem voru í mestum vanda. Þegar við fórum yfir tillögurnar frá hópnum núna og fengum tækifæri til að spyrja út í þær kom fram að ekki hafði farið fram nein greining á því hvaða áhrif þetta hefði á þá verst stöddu, þessar aðgerðir væru fyrst og fremst almenn sanngirni, og að þeir sem verst væru staddir mundu að öllum líkindum áfram þurfa að leita til umboðsmanns skuldara.

Í ljósi þess að hæstv. ráðherra leggur þetta frumvarp fram í kjölfar tillagna frá hópi hæstv. forsætisráðherra langar mig að spyrja hvort hún hafi séð einhverja greiningu varðandi áhrif á hópinn sem nú stendur frammi fyrir nauðungarsölum og hvort hún telji aðstöðu hans skýrari eftir að þær tillögur komu fram ef það eru rökin fyrir því að frumvarpið kemur svo seint fram. Það væri mjög mikilvægt að heyra svar við því. Þetta eru áhyggjur sem við mörg sem höfum skoðað þessar tillögur höfum af því að sá hópur sem mest þarf á aðstoð að halda verði áfram skilinn eftir. Ég efa að frestur á nauðungarsölu um hálft ár skipti máli ef aðgerðir fylgja ekki á eftir.