143. löggjafarþing — 34. fundur,  12. des. 2013.

nauðungarsala.

232. mál
[01:25]
Horfa

innanríkisráðherra (Hanna Birna Kristjánsdóttir) (S) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég deili alveg áhyggjum hv. þingmanns af þeim heimilum sem eru stödd á svo erfiðum stað, eins og við nefndum áðan í orðaskiptum milli mín og hv. þm. Steingríms J. Sigfússonar, að einhver ein aðgerð mun ekki leysa vanda allra. Það ræddum við áðan. Ég deili alveg þeim áhyggjum og við vitum að sú aðgerð að fresta nauðungarsölum tímabundið mun ekki koma í veg fyrir að framkvæmdar verði einhverjar nauðungarsölur á Íslandi á komandi missirum, því miður. Ég lít svo á að hv. þingmaður sé að varpa fram ákveðnum áhyggjum, en hvað vill þingmaðurinn þá gera? Hún hefur efasemdir um skuldaleiðréttingu núverandi ríkisstjórnar, sem þingmaðurinn hefur fullan rétt á að hafa, en áttum við þá ekki að gefa almenningi tækifæri til að skoða málin í þessum mánuði?

Það er alveg hárrétt sem hefur komið fram í máli margra hv. þingmanna í þessari umræðu, hvert mál fyrir sig er einstakt. Hv. þm. Svandís Svavarsdóttir fór vel yfir það. Sannarlega er hvert mál einstakt. Þess vegna erum við að gefa almenningi þetta tækifæri. Ég virði það og veit að þingmaðurinn er ekki að reyna að rjúfa neina samstöðu um þetta mál, enda held ég að það verði illa hægt. Ég veit samt ekki alveg, svo ég sé alveg ærleg, hvað þingmaðurinn er að fara með athugasemdunum annað en þá að tala neikvætt um hinar almennu skuldaaðgerðir. Ég kýs hins vegar að líta svo á að þetta séu meira ábendingar til okkar um það. Gott og vel, en að endingu ítreka ég þakkir mínar til þingmanna almennt um samstöðuna sem ríkir um þetta mál og ítreka að ég er þeirrar skoðunar að það skipti miklu máli. Ég vona innilega að hv. nefnd takist að afgreiða málið fljótt og örugglega.