143. löggjafarþing — 34. fundur,  12. des. 2013.

fjárhagsaðstoð vegna gjaldþrotaskipta.

233. mál
[01:36]
Horfa

Sigríður Ingibjörg Ingadóttir (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir að leggja fram þetta frumvarp. Ég held að það sé mjög mikilvægt. Það er óeðlilegt að fólk sem er komið í fjárhagslegt þrot geti ekki fengið endi á þá sorgarsögu og komist síðan út úr henni eftir að fyrningarfrestur er liðinn. Þetta er mjög jákvætt mál. Ég hefði reyndar viljað sjá það fyrr hér í þinginu. Ég hélt að það kæmi til velferðarnefndar og var búin að lesa það sérstaklega með það í huga, en ég ætla ekki að deila um í hvaða nefnd það á að fara og held að það eigi allt eins heima í allsherjarnefnd.

Ég veit að svipað mál var til umfjöllunar í velferðarnefnd á síðasta kjörtímabili. Það endaði með því, ekki síst vegna umsagna, að málið kom ekki aftur inn í þingið. Ég sat ekki í velferðarnefnd þá en ég geri ráð fyrir að málið hafi takið breytingum. Nú er umboðsmaður skuldara með í vinnunni sem hafði efasemdir eftir því sem meðferð málsins vatt fram áður. Ég tel mikilvægt að málið verði sent út til umsagnar. Svo þarf að meta hvað á að gefa því langan tíma.

Ég styð málið heils hugar. Ég veit að það skiptir ákveðinn hóp miklu máli. Ég velti fyrir mér og langar að spyrja ráðherrann hvort hún telji öllu máli skipta að málið verði afgreitt fyrir jól eða hvort hún sé að leggja það fram svo að hægt verði að afgreiða það strax eftir jól. Ég vildi bara heyra væntingar ráðherra til tímans.