143. löggjafarþing — 34. fundur,  12. des. 2013.

fjárhagsaðstoð vegna gjaldþrotaskipta.

233. mál
[01:41]
Horfa

Sigríður Ingibjörg Ingadóttir (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Ég skil vel að ráðherra vilji ljúka þessu máli sem fyrst. Ég held að full ástæða sé til að það verði unnið hratt hérna í þinginu. Ég vil samt ítreka, af því að þetta eru ný lög, þetta er ekki bara ein lítil breyting á lögum, það er verið að setja nýja löggjöf, að það er mikilvægt að málið verði sent út til umsagnar, en það er auðvitað hægt að hafa styttri umsagnarfrest. Ég ítreka að gefinn verði kostur á slíku. Síðan er alltaf hægt að hafa frestinn styttri.

Ég vildi aðallega heyra álit ráðherra á því og vísa bara til þess að þegar við erum að setja nýja löggjöf eigum við að vanda okkur þannig að hún virki fyrir þá sem hún á að gagnast. Svo þarf bara að meta hve knappur tíminn er. Skiptir máli hvort við samþykkjum þetta hér rétt fyrir jól eða þegar við komum saman aftur? Allsherjarnefnd getur sent málið út til umsagnar og unnið það svo strax í janúar og verið komin með það til 2. umr. og til atkvæðagreiðslu um miðjan janúar. Það kann að vera of langur tími.

Ég vildi bara segja þetta því að ég held að málið sé brýnt, skipti miklu máli, en það skiptir líka máli að lögin séu þannig úr garði gerð að ekki séu agnúar á þeim sem síðan komi í ljós, einhvern tímann fljótlega í febrúar.