143. löggjafarþing — 34. fundur,  12. des. 2013.

fjárhagsaðstoð vegna gjaldþrotaskipta.

233. mál
[01:42]
Horfa

félags- og húsnæðismálaráðherra (Eygló Harðardóttir) (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ástæðan fyrir því að ég vona svo sannarlega að við getum klárað þetta fyrir jól snýr að gjaldtökunni, að því hvernig ætlunin er að fjármagna þetta. Það er því mikilvægt að lagaramminn liggi fyrir og þar af leiðandi hvernig standi til að fjármagna þetta. Hugsunin er að gera það með gjaldtöku á fjármálafyrirtæki, Íbúðalánasjóð og lífeyrissjóði, í samræmi við hvernig umboðsmaður skuldara er fjármagnaður. Við leituðum álits á því og menn töldu að á þeirri forsendu væri rétt að afgreiða þetta svona.

Ég hvet hins vegar nefndina til þess að fara mjög vel yfir það hvort hin leiðin sé möguleg. Hv. þm. Unnur Brá Konráðsdóttir og hv. þm. Sigríður Ingibjörg Ingadóttir hafa mikla reynslu af vinnslu laga um greiðsluaðlögun. Þingið er búið að taka nokkra snúninga á þeirri löggjöf. Þessar mætu konur vita svo sannarlega hversu miklu máli skiptir að vanda sig þegar kemur að slíkum málum. Hins vegar er alltaf ákveðin óvissa þegar við setjum ný lög um hvernig þau reynast. Ég geri t.d. fastlega ráð fyrir því að koma hingað inn með frumvörp sem snúa að endurskoðun á lögunum sjálfum um greiðsluaðlögun byggð á þeirri reynslu sem við höfum fengið á undanförnum árum. Ég ætla ekki að halda því fram að það sama mundi ekki gerast þó að Alþingi tæki langan tíma í að fara í gegnum þetta mál því að þegar á reynir gætu að sjálfsögðu komið upp vankantar á lögunum sem við yrðum bara að taka á síðar.

Þetta mál er að mínu mati mjög mikilvægt. Við erum að tala um þann hóp sem stendur hvað verst. Það þarf þetta sértæka úrræði að mínu mati. Þess vegna legg ég þetta hér fram.