143. löggjafarþing — 34. fundur,  12. des. 2013.

fjárhagsaðstoð vegna gjaldþrotaskipta.

233. mál
[01:50]
Horfa

Jón Þór Ólafsson (P) (andsvar):

Herra forseti. Eins og hæstv. ráðherra segir er gríðarlega slítandi að þurfa að fara í gegnum þetta allt saman, hvað þá að vera fastur í þessari stöðu og geta ekki losnað. Það er það sem þetta frumvarp býður upp á, það býður fólki upp á að fara frjálsara inn í framtíðina sem er alveg ofboðslega verðmætt fyrir fólk sem er búið að standa í þessu striti. Þannig að það er hreint frábært að þetta frumvarp skuli vera komið fram. En bara til að það nái fullri virkni, frumvarpið nái tilgangi sínum, er ég að benda á þetta. Maður hefur heyrt margar slæmar sögur um umboðsmann skuldara og þess vegna er mjög gott að hæstv. ráðherra byggi inn í frumvarpið að hægt sé að kæra ákvörðun umboðsmanns til ráðherra. Ég er að benda á það og ítreka að hæstv. ráðherra haldi vel á spöðunum eftir að frumvarpið er orðið að lögum og haldi umboðsmanni svolítið við efnið þannig að full virkni þessa lagafrumvarps náist.