143. löggjafarþing — 35. fundur,  12. des. 2013.

störf þingsins.

[10:33]
Horfa

Þórunn Egilsdóttir (F):

Virðulegi forseti. Undir þessum lið þinghaldsins sem er kallaður störf þingsins langar mig að ræða um vinnustaðinn okkar, Alþingi. Hver vinnustaður á sér sína menningu og sínar hefðir sem stundum koma nýliðum spánskt fyrir sjónir. Alþingi er mikilvæg stofnun og ábyrgð okkar þingmanna er mikil. Alþingi er vinnustaður okkar þingmanna og vinnustaðamenningin skiptir máli hér, ekkert síður en á öðrum vinnustöðum. Mikilvægt er að ræða menninguna, í hverju hún felst, hvaða gildi eru í hávegum höfð. Hollt er að skoða vinnustaðabraginn, hvaða samskiptahættir eru tíðkaðir og hvernig samskipti fara fram. Hægt er að velta fyrir sér hvernig maður vill hafa vinnustaðinn sinn.

Á þessum vinnustað hefur verið stofnaður hópur jákvæðra, óformlegur hópur sem mun koma saman til að ræða þau gildi sem þátttakendur telja mikilvæg í mannlegum samskiptum. Jafnvel verða rifjaðar upp kurteisisvenjur sem geta gert lífið skemmtilegra og kannski rætt um leiðir sem geta hjálpað fólki að glata ekki gleðinni í amstri dagsins. Í hópnum tölum við saman og tökum þátt sem einstaklingar og höfum það að leiðarljósi að auka gleði og jákvæðni.

Félagsskapurinn er öllum þingmönnum opinn, hvorki verður skipuð stjórn né nokkrir fjármunir settir í félagsskapinn.