143. löggjafarþing — 35. fundur,  12. des. 2013.

störf þingsins.

[10:45]
Horfa

Ögmundur Jónasson (Vg):

Hæstv. forseti. Með undantekningum þó eru störf þingsins að þróast yfir í að vera eins konar stund fyrir skriftamál alþingismanna. Í gær var það reyndar svo að tíminn sem var ætlaður undir þessa umræðu var orðinn ein allsherjarsjálfstyrking eða öllu heldur hópefli alþingismanna stjórnarmeirihlutans þar sem hver þingmaðurinn á fætur öðrum kom upp og sagði: Erum við ekki góð? Erum við ekki alveg frábær?

Ég ætla, hæstv. forseti, líka að skrifta. Ég ætla að lýsa áhyggjum yfir því að stjórnarþingmenn komi ekki upp og ræði málefni Ríkisútvarpsins og það sem er að gerast þar. Hafa menn ekki áhyggjur af því þegar mörgu besta starfsfólki útvarpsins er vísað á dyr eins og þar hefur verið gert?

Mig langar líka að viðra áhyggjur mínar af því sem er að gerast í heilbrigðiskerfinu. Fjármagnið sem við verjum til heilbrigðismála er ekki eini mælikvarðinn á gæðum þess, síður en svo. Dýrasta heilbrigðiskerfi í heimi er það bandaríska; það er einkavætt. Nú sjáum við vísbendingar um hvað er að byrja að gerast hér.

Í Morgunblaðinu segir frá sjúkrahúsi sem menn vilja koma á laggirnar í Mosfellsbæ. „Lítið breytt en andinn betri“, segir í fyrirsögninni. Ekki hefur tekist að ljúka við fjármögnun á sjúkrahúsinu en breytt viðhorf eru með nýrri ríkisstjórn.

Fyrir fáeinum dögum var heilbrigðisráðherra staddur uppi á gamla Broadway, skemmtistaðnum, með ýmsum fjárfestum Sjálfstæðisflokksins sem lýstu ánægju yfir því sem mundi gerast í framtíðinni, mörg viðskiptatækifæri væru á sviði heilbrigðismála, og heilbrigðisráðherrann úr þessari ríkisstjórn var mættur til að lýsa sérstakri velþóknun (Forseti hringir.) á því sem var verið að gera. Ég spyr: Fyrir hönd hverra? Skattgreiðenda?