143. löggjafarþing — 35. fundur,  12. des. 2013.

störf þingsins.

[10:53]
Horfa

Katrín Júlíusdóttir (Sf):

Virðulegi forseti. Ég kem hér upp vegna frétta um það að forstjóri Century Aluminum hafi lýst því yfir á fundi með greiningaraðilum hjá banka úti í Bandaríkjunum að ekki yrði af áformum um uppbyggingu í Helguvík. Það virðist sem móðurfélagið sé búið að taka endanlega ákvörðun um það.

Það vekur mig til umhugsunar um umræðuna um stórfyrirtæki, mögulega uppbyggingu þeirra hér á Íslandi og stjórnmálin; hvernig sumir stjórnmálamenn og stjórnmálaflokkar hafa átt það til í gegnum tíðina að taka upp á sína arma einstaka aðila.

Ég var nefnilega alveg undrandi á því að sjá þessa frétt. Hvers vegna var ég undrandi á því? Vegna þess að vonda vinstri stjórnin er bara ekkert lengur við völd á Íslandi. Hér er komin stjórn þar sem er iðnaðar- og viðskiptaráðherra sem lýsti því yfir í þessum ræðustóli að fyrirtækið sjálft væri alsælt með þá nýju stjórn sem væri komin í landið og nú yrðu engar hindranir í vegi þess að uppbygging gæti hafist í Helguvík.

Virðulegi forseti. Svona eiga stjórnmálamenn ekki að tala. Við eigum að búa til almennt umhverfi, við eigum að vera með lög og reglur í landinu þar sem fyrirtæki geta komið og byggt upp innan ramma og reglna sem við setjum okkur. Stjórnmálamenn eiga ekki að taka einstaka aðila upp á sína arma.

Málið hefur alltaf snúist um viðskiptaákvarðanir á einkamarkaði og það eru viðskiptaákvarðanir sem hafa tafið verkefnið og það eru viðskiptalegar forsendur sem valda því að yfirlýsing kemur frá forstjóranum um að ekki verði af þessu.

HS Orku er ekki stjórnað af vondum vinstri mönnum. Hún vill ekki selja fyrirtækinu orku á því verði sem það telur sér fyrir bestu. Viðskiptasamningar náðust ekki. (Forseti hringir.) Við skulum vanda okkur betur, stjórnmálamenn, í framtíðinni og hætta (Forseti hringir.) að tala máli einstakra fyrirtækja og skapa þannig óraunhæfar væntingar og (Forseti hringir.) gefa loforð sem menn geta ekki staðið við.