143. löggjafarþing — 35. fundur,  12. des. 2013.

störf þingsins.

[10:55]
Horfa

Guðlaugur Þór Þórðarson (S):

Virðulegi forseti. Ég vil byrja á því að þakka hv. þingmönnum sem hér hófu að tala undir þessum lið fyrir jákvæðnina. Þegar ég hlustaði á hinar ræðurnar datt mér að vísu í hug hvort við ættum að koma á skylduaðild alþingismanna að félagsskapnum, en ég ætla samt ekkert að mæla með því. Hins vegar er allt í lagi að sýna aðeins meiri (Gripið fram í.) jákvæðni.

Vegna umræðunnar sem er hér vildi ég að við minntumst þess í hvaða umhverfi við erum. Við erum að ræða fjáraukalagafrumvarp og fjárlagafrumvarp, við erum að taka við búi sem sagt var að væri hallalaust en hallinn er 30 þús. millj. kr. Þegar menn segja að það sé út af tekjubreytingum hjá núverandi ríkisstjórn er það 10–15% af þeirri upphæð.(Gripið fram í: Nú dettur út …) [Hlátur í þingsal.] Þar fór það.

Því miður tókst ekki að skattleggja okkur út úr vandanum. Nú er verkefnið — og ég vona að það sé góð sátt um það — að hagræða í þágu heilbrigðismála. Ef við erum að tala um þá sem minnst mega sín í þessu þjóðfélagi eru það án nokkurs vafa þeir veiku. Sjúkur maður á bara eina ósk, við sem erum tiltölulega heilbrigð eigum margar.

Ég vil líka segja, sérstaklega af því að hér kom hv. þm. Ögmundur Jónasson sem talaði gegn betri vitund, að hv. þm. Ögmundur Jónasson hefur ekkert með það að gera að reyna að gera allan einkarekstur í heilbrigðisþjónustu tortryggilegan. Hv. þingmaður veit það betur en flestir aðrir að við höfum haft almennt góða reynslu af einkarekstri í íslenskri heilbrigðisþjónustu. Við getum nefnt sjálfstæða heimilislækna, við getum nefnt Salahverfið, Orkuhúsið og spítalana sem voru byggðir hér fyrst sem voru svo sannarlega einkaspítalar. Við getum nefnt SÁÁ og ýmislegt annað. Auðvitað skiptir máli (Forseti hringir.) ... að hugsa um hag sjúklinga og líka hag skattgreiðenda (Forseti hringir.) en að taka út eitt form í heilbrigðisþjónustu okkar og gera það tortryggilegt er ekki málefnalegt og það er ekki rétt. (Gripið fram í.)