143. löggjafarþing — 35. fundur,  12. des. 2013.

störf þingsins.

[11:01]
Horfa

Vilhjálmur Bjarnason (S):

Virðulegi forseti. Ég ætla, með leyfi forseta, að lesa hér úr bréfi sem mér barst í fyrrakvöld. Bréfið er skrifað í tilefni af því að ég flutti ræðu undir þessum lið, um störf þingsins, og skoraði á íslenska karlmenn.

„Góða kvöldið, Vilhjálmur. Mér finnst ég ekki geta annað en sagt þér frá því hvað safnaðist fyrir róbot til handa Landspítalanum í tilefni afmælis mannsins míns, hans Þorbergs.“ — Þorbergur var slökkviliðsstjóri í Stykkishólmi. — „Samfélagið hér er ekki ýkja stórt en maðurinn minn er vel liðinn vegna sinna starfa. Söfnunin stendur nú í 544 þús. kr. auk okkar framlags. Ég ræddi við Eirík Jónsson lækni í gær. Hann sagði mér að eftir hans upplýsingum væru komnar inn á söfnunarreikninginn 18–20 milljónir. Karlmenn mega því taka sig verulega á ef þeir ætla ekki að láta kalla sig skussa um þetta málefni sem varðar þá sjálfa gríðarlega mikið. Kannski eitthvað meira síðar.“

Virðulegi forseti og góðir þingmenn, sérstaklega karlmenn. Ég flutti ræðu fyrir nokkru þar sem ég vakti athygli á því að þjarkur til skurðlækninga til að fjarlægja blöðruhálsmein kostar líklega 300 milljónir og íslenskar konur hafa safnað verulega til handa Barnaspítala Hringsins. Þær upphæðir eru hærri en ég ætla mér að nefna hér, sérstaklega þegar verið er að ræða fjárlög, en ég ætla að endurtaka áskorun mína: Ég skora á íslenska karlmenn að taka sig nú til. Það er vel hægt að leysa þetta mál eins og sést á þessu litla samfélagi í Stykkishólmi þar sem Þorbergur Bæringsson hélt upp á afmælið sitt og afþakkaði gjafir og óskaði eftir því að þetta yrði látið renna til kaupa á tækjum til Landspítalans.

Virðulegi forseti. Ég hef lokið máli mínu.