143. löggjafarþing — 35. fundur,  12. des. 2013.

fjáraukalög 2013.

199. mál
[11:55]
Horfa

Steingrímur J. Sigfússon (Vg):

Herra forseti. Hér birtist okkur tekjutap ríkissjóðs vegna ákvörðunar ríkisstjórnarinnar frá því í vor að lækka umtalsvert sérstakt veiðigjald. Hér fara út 3 milljarðar, 160 millj. kr. eða hátt í þá fjárhæð sem ríkisstjórnin og meiri hluti hennar er með alveg ótrúlegum æfingum að reyna að skrapa saman til að leggja inn í heilbrigðiskerfið með skerðingu á þróunaraðstoð og guð má vita hvað.

Nú vill svo vel til, herra forseti, alveg skínandi vel til að í gær kom á vefinn frá Hagstofunni yfirlit yfir hag veiða og vinnslu íslensks sjávarútvegs á árinu 2012. Hvað kemur í ljós? Framlegð sjávarútvegsins er fyllilega jafn góð og árið 2011 eða rétt tæpir 80 milljarðar kr. þrátt fyrir þá hækkun á veiðigjöldum sem kom til greiðslu á árinu 2012. Með öðrum orðum reyndust allar hrakspár um að afkoma sjávarútvegsins mundi hrynja eða versna til mikilla muna rangar hjá stjórnarandstöðunni á þeim tíma, (Forseti hringir.) hjá endurskoðunarfyrirtækjum, hjá bönkunum, hjá LÍÚ og hjá öllum áróðursklúbbnum sem orgaði næstum því af sér hausinn á síðasta ári.