143. löggjafarþing — 35. fundur,  12. des. 2013.

fjáraukalög 2013.

199. mál
[11:56]
Horfa

Árni Páll Árnason (Sf):

Virðulegi forseti. Hér sjáum við afleiðingar sjálfskaparvítis ríkisstjórnarinnar. Hér sjáum við tölurnar sem eru samfara því að ríkisstjórnin tók meðvitaða ákvörðun um að létta byrðum af þeim sem best voru í færum til að borga þær og koma þeim á aðra þjóðfélagshópa. Við munum sjá frekar við afgreiðslu fjárlagafrumvarps og við afgreiðslu tillagna ríkisstjórnarinnar ótrúlegar tilraunir ríkisstjórnarinnar til að láta hina ýmsu hópa sem lakast standa í samfélaginu bera ríkari byrðar af samneyslunni en létta á þeim sem best eru í færum til að borga undan sínum byrðum. Það má sjá núna að arðsemin í sjávarútveginum hefði fyllilega staðið undir því veiðileyfagjaldi sem við lögðum til í sumar í minni hluta atvinnuveganefndar að yrði raunin, greinin hefði fyllilega staðið undir því gjaldi. Þetta er sorgleg stund (Forseti hringir.) hér fyrir þingheim að afsala sér þessum tekjum formlega.