143. löggjafarþing — 35. fundur,  12. des. 2013.

fjáraukalög 2013.

199. mál
[12:26]
Horfa

Guðbjartur Hannesson (Sf):

Hæstv. forseti. Inni á hverri einustu heilbrigðisstofnun þ.e. utan Landspítala og Fjórðungssjúkrahússins á Akureyri, er reiknuð húsaleiga. Húsaleigan rennur inn í Fasteignir ríkisins og hún fer beint þar á milli og er notuð til að sinna viðhaldi á þessum stofnunum.

Nú gerist það á þessu ári að Fasteignir ríkisins eru að taka til baka niðurskurð sem var á síðasta ári og setur á hverja einustu stofnun hækkun sem ekki var í fjárlögum, allt upp í 20 millj. kr., eins og til dæmis á Suðurland, Austurland, Vesturland; og ef menn fá ekki tekjur á móti þá verða menn að skera niður fyrir þessari húsaleigu eða falla frá því að Fasteignir ríkisins taki þennan pening af stofnununum. Það hefur engin trygging verið gefin fyrir þessu þannig að eftir stendur að þessar stofnanir hafa allar fengið bréf um að þær muni fá fjárveitingu þannig að þær þurfi ekki að taka úr venjulegum heilbrigðisrekstri yfir í húsaleigu — því að þá er algerlega búið að eyðileggja hugmyndina með Fasteignum ríkisins. Þeir eru búnir að fá bréf um það en hér kemur Alþingi og gerir þveröfugt og setur forstöðumenn stofnananna aftur út á guð og gaddinn. Segir: Þið verðið að skera niður heilbrigðisþjónustu til að mæta húsaleigu. Það er algerlega nýtt í sögunni.