143. löggjafarþing — 35. fundur,  12. des. 2013.

fjáraukalög 2013.

199. mál
[12:27]
Horfa

Katrín Jakobsdóttir (Vg) (um atkvæðagreiðslu):

Virðulegi forseti. Hér liggur fyrir tillaga um að setja 240 milljónir inn í Atvinnuleysistryggingasjóð því að nú metur velferðarráðuneytið það svo að fjöldi atvinnulausra verði meiri en gert var ráð fyrir í fyrri spám. Ég lít svo á að í þessu máli dugi ekki að benda á einhverja sökudólga. Hér er bara þróun á ferð sem þarf að bregðast við. Hæstv. félags- og húsnæðismálaráðherra hefur bent á að þetta mál sé í höndum Alþingis, fjárveitingavaldsins, hvort atvinnulausir fái desemberuppbót í ár eins og verið hefur undanfarin ár. Ég hvet hv. þingmenn hér í ljósi þess að þetta mál er algjörlega í okkar höndum til að greiða þessari tillögu atkvæði í ljósi þess, eins og við öll vitum, að atvinnuleysisbætur eru ekki háar, jólahátíð fer í hönd og það skiptir miklu máli að þessi desemberuppbót skili sér til þeirra sem því miður eiga við það að stríða að hafa ekki atvinnu.